14. júlí 2018

Fólk bætir sig á Landsmótinu og samfélagið um leið

 

„Mikilvægt er að fá sem flesta til að hreyfa sig reglulega og hægt og bítandi að fjölga þeim einstkalingum sem gera það, þeim sjálfum og samfélaginu til hagsbóta,“ segir Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).

Haukur setti Landsmótið í Aðalgötunni á Sauðárkróki í gærkvöldi að viðstöddum miklum fjölda fólks. Landsmótið sem stendur yfir um helgina er verulega breytt frá því sem landsmenn hafa þekkt í gegnum tíðina og hefur greypt sig inn í þjóðarsálina. Mótið nú er opið öllum 18 ára og eldri og þurfa þátttakendur ekki að vera í ungmenna- eða íþróttafélagi til að taka þátt.

Á mótinu er boðið upp á tæplega 40 mismunandi íþróttagreinar, margar jaðaríþróttir og ýmsar óhefðbundnar íþróttir á borð við biathlon, krolf, pönnukökubakstur og margt fleira. Meistaramót í frjálsum fer fram á sama tíma.

Á annað þúsund þátttakendur eru á mótinu og margir með hverjum þeirra. 

 

Að bæta sjálfan sig og samfélagið

Haukur sagði:

„Það er búið að vinna nokkuð lengi að breytingum á fyrirkomulagi landsmóta UMFÍ, sem eiga sér yfir 100 ára sögu  en margir hafa komið að þeirri vinnu. Það er að nokkru leiti að danskri fyrirmynd sem mótið hefur sitt form en við höfum átt í góðu samstarfi við systursamtök okkar, DGI, í Danmörku. Ég vil lýsa yfirbragði mótsins þannig að mikil áhersla er lögð á eflingu lýðheilsu og að kynna fyrir fólki hina fjölbreyttu möguleika á að fá fólk til að hreyfa sig og vinna þannig að bættri heilsu og ánægju í lífinu.“

Haukur sagði einn af kostum Landsmótsins að þar geti hver og einn tekið þátt á eigin forsendum og fundið sína hreyfingu.  

„Skemmtun og að vera í góðum félagsskap er einnig einn af meginkostum þessa mótahalds, hér á gleðin að vera í fyrirrúmi,“ sagði hann og þakkaði öllum sem hafa komið að mótinu stuðninginn.

Að lokum vitnaði Haukur til Guðna Th. Jóhannessonar, verndara ungmennafélagshreyfingarinnar, en hann sagði um ungmennafélagandann að andi UMFÍ sé að einblína á að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið.

„Höfum þetta í huga og þetta mót er einmitt í þessum anda, að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið og að hafa gaman.“

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ýmsum viðburðum á Landsmótinu í gær.