06. maí 2019

Formaður UMFÍ segir samvinnu skila góðum árangri

„Ljóst er af nýrri íþróttastefnu að bjart er framundan í íþróttamálum á Íslandi. En við megum samt ekki sofna á verðinum enda víða erlendis horft til Íslands í mörgum málum, bæði árangurs þessarar fámennu þjóðar á íþróttasviðinu en ekki síður eftirtektarverðs árangurs í forvarnarmálum ungmenna, sem er lifandi verkefni,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.

Hann hélt ávarp á íþróttaþingi ÍSÍ sem fram fór um helgina. Þar lagði hann mikla áherslu á kosti samvinnu félaga og nýja íþróttastefnu sem kynnt var á fimmtudag.

„Það er margsannað að samvinna skilar árangri. UMFÍ hefur unnið að því að efla samstarf innan sambandsaðila UMFÍ,“ sagði hann og benti á að samvinnan birtist í sterkari félögum og meiri fjölbreytni í íþróttalífi landsmanna. Hann fjallaði líka um verkefnið Vertu með sem er eitt af samstarfsverkefnum ÍSÍ og UMFÍ. Markmið þess er að kynna fyrir erlendu fólki sem flust hefur hingað til lands hversu fjölbreytt íþróttastarfið er á Íslandi leiðirnar til að taka þátt í því. „Kannanir sýna greinilega að þátttaka fólks af erlendum uppruna er minni en annarra hópa hér á landi. Íþróttafólk sem á foreldra sem fæddust í erlendu ríki eða er sjálft nýflutt hingað hefur líka sagt að það hafi aðlagast nýju samfélagi betur vegna þátttöku sinnar í íþróttum. Við vitum að saman gerum við þetta góða starf enn betra,“ sagði hann.

Haukur sagði samvinnuverkefnið í takti við nýja íþróttastefnu því hún leitist við að tryggja aðgengi sem flestra að íþróttastarfi svo allir fái tækifæri til að taka þátt í því óháð kyni, kynhneigð, kynþætti, kynvitund, litarhætti og uppruna.

 

Ávarp Hauks í heild sinni:

 

                                            Íþróttaþing ÍSÍ 2019.

 

Menntamálaráðherra, forseti ÍSÍ og framkvæmdastjórn, þingforsetar, gestir og góðir þingfulltrúar.

Ný íþróttastefna til ársins 2030 var kynnt í gær. Það eru gleðitíðindi enda endurspeglar hún faglega umgjörð um íþróttastarf hér á landi, skarpari áherslu og lofar góðu um framtíðina.

Margoft hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif þess að gera börnum og ungmennum kleift að taka þátt í skipulögðu íþrótta- æskulýðsstarfi, fá þau til að vera innan félaga og taka þátt í starfi þeirra. Það er þessi umgjörð og félagsstarfið sem íþrótta- og ungmennafélögin, sérsambönd og íþróttahéruð veita ungu fólki og styrkir þau til heilbrigðs lífsstíls ævina á enda. Fyrir það ber að þakka.

Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að sjá að áherslur nýrrar íþróttstefnu eru að tryggja aðgengi sem flestra að íþróttastarfi svo allir fái tækifæri til að taka þátt í því óháð kyni, kynhneigð, kynþætti, kynvitund, litarhætti og uppruna.

Við hjá UMFÍ og ÍSÍ höfum einmitt unnið saman að mörgum góðum verkefnum á undanförnum misserum sem hafa það að markmiði að styrkja umgjörðina og starfið frekar, gera fólki auðveldara um vik að stunda íþróttir og styrkja sig og aðra. Það á jafnt við um þá sem vilja vera í fyrsta, öðru eða þriðja sæti og einnig fyrir þá sem stunda íþróttir á eigin forsendum. Að verða betri manneskja, jafnt líkamlega sem andlega og hjálpa öðrum að feta sama stíg. Á meðal slíkra samstarfsverkefna er Vertu með en markmið þess er tvíþætt: Að kynna fyrir erlendu fólki sem flust hefur hingað til lands hversu fjölbreytt íþróttastarfið er hér á landi og leiðirnar til að taka þátt í því. Á sama tíma eru sambandsaðilar styrktir til að auglýsa starfið á sínu svæði á þeim fjölbreyttu tungumálum sem töluð eru á hverjum stað. Kannanir sýna greinilega að þátttaka fólks af erlendum uppruna er minni en annarra hópa hér á landi. Íþróttafólk sem á foreldra sem fæddust í erlendu ríki eða er sjálft nýflutt hingað hefur líka sagt að það hafi aðlagast nýju samfélagi betur vegna þátttöku sinnar í íþróttum. Við vitum að saman gerum við þetta góða starf enn betra.

Það er margsannað að samvinna skilar árangri. UMFÍ hefur unnið að því að efla samstarf innan sambandsaðila UMFÍ.  60 manna hópur stjórnenda úr hreyfingunni hvaðanæva að af landinu ætla að fara til Danmerkur í lok maí til að kynnast stefnu og framgangi íþróttafélaga þar í landi. Það má gera ráð fyrir því að ferðalangarnir koma heim með góðar hugmyndir í farteskinu – og það sem meira er – betri tengsl hvert við annað. Það mun skila sér í sterkari félögum og meiri fjölbreytni í íþróttalífi landsmanna.

Ljóst er af nýrri íþróttastefnu að bjart er framundan í íþróttamálum á Íslandi. En við megum samt ekki sofna á verðinum enda víða erlendis horft til Íslands í mörgum málum, bæði árangurs þessarar fámennu þjóðar á íþróttasviðinu en ekki síður eftirtektarverðs árangurs í forvarnarmálum ungmenna, sem er lifandi verkefni.

Við vinnum öll vel saman. Höldum því áfram. Það skilar sér í enn betra íþróttastarfi og bættri lýðheilsu fyrir alla - samfélaginu til góða.

Ég flyt ykkur, stjórn og starfsfólki ÍSÍ bestu kveðjur frá stjórn og starfsfólki Ungmennafélags Íslands og óska ykkur öllum velfarnaðar og góðs gengis í störfum hér á þinginu og heima í héraði.

 

Myndina af formanni UMFÍ tók Arnaldur Halldórsson og er hún birt mynd góðfúslegu leyfi ÍSÍ.