25. október 2021

Formaður UMFÍ: Ungmennafélagsandinn er einstakur

„Ungmennafélagsandinn er raunverulegur og einstakur. Þetta eru viðhorf og tilfinning sem fólk finnur hvert og eitt í gleðinni og því að taka þátt,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, nýr formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).

Rætt er við Jóhann Steinar í Morgunblaðinu í dag, bæði í tilefni af því að hann tók á dögunum við af Hauki Valtýssyni sem formaður UMFÍ á Sambandsþingi UMFí á Húsavík. Þar kynnti hann jafnframt fyrir þingfulltrúum afrakstur stefnumótunarvinnunnar sem unnið hefur verið að síðustu mánuði.

Formaðurinn segir ungmennafélagshreyfinguna breytast í takt við tímann og því takast ævinlega að vera leiðandi í samfélaginu. Þótt íþróttir skipi stærstan sess í hreyfingunni þá sé áhersla á lýðheilsu, líkamlegt og andlegt heilbrigði, yngra fólk hafi fengið heilmikla félagsmálafræðslu hjá UMFÍ í gegnum árin og læri margt í gegnum Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni.

„Nýtt fólk og nýjar hugmyndir halda líka ungmennafélagshreyfingunni kvikri og framsækinni inn í nýja tíma,“ segir hann.

Tekið er fram í viðtalinu að nýverið hafi verið skerpt á stefnu UMFÍ. Kjarni hennar er að hreyfingin sé samstillt, viðbragðsfljót, nútímaleg og öflugt landssamband sem hafi hagsmuni allra íþróttahéraða og félaga þeirra í forgrunni. Jóhann segir mikilvægt að stefnan sé í sífelldri endurskoðun. Félagið sé líka a breytast og víasar til þess að ÍBR, ÍA og ÍBA komu inn í UMFí árið 2019. Innan vébanda þeirra séu mörg af öflugustu íþróttafélögum landsins, þar með talin stóru félögin í höfuðborginni.

„ En sprengikraftur hreyfingarinnar og styrkur íþróttalífs í umræðunni varð mun meiri en áður,“ segir formaðurinn. „Það sem stendur þó helst upp úr er að samvinnan á milli bandalaganna og UMFÍ hefur aukist til muna en hún var ekki mikil fyrir. Samvinnan gerir allt auðveldara. Það sama á líka við um vinnuna með ÍSÍ. Þegar við sameinum krafta okkar þá er árangurinn margfaldur og við höfum sterka rödd sem hlustað er á,“ segir hann.

Þá er komið inn á það í viðtalinu að ungmennafélagsandinn og fjölbreytt samvinna leiddi Jóhann Steinar í störf fyrir UMFÍ.

„Þátttaka í þessu starfi hefur gefið mér mikið. Verkefnin eru mörg og fyrir mér skiptir núna mestu máli að koma starfi hreyfingarinnar af stað aftur eftir bakslagið sem Covid olli. Þá tel ég nauðsynlegt að skilgreina betur starf íþróttahéraða ásamt fjármögnun þeirra. Einnig hefur lengi verið reynt að samræma útgreiðslur ÍSÍ og UMFÍ á ávinningi þeirra af rekstri Íslenskrar getspár. Ég tel ákveðið tækifæri vera núna til að slá tvær flugur í einu höggi og takast á við þessi tvö verkefni, íþróttahéruð og lottógreiðslur, á sama tíma og efla enn frekar starf íþróttahéraða. Þannig eru þau betur í stakk búin til að styðja við íþróttafélögin í landinu,“ segir formaður UMFÍ í samtali við Morgunblaðið.