06. ágúst 2019

Formaður USÚ gekk í öll störf sem þurfti

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts, sem hélt Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina, tók að sér margvísleg hlutverk um helgina. Hún vann í sjoppu á mótinu, hélt ávarp og hélt niðri marki svo hægt væri að keppa í strandhandbolta.

„Mér finnst æðislega gaman að fá að taka þátt í því að halda svona mót. Það er svo gefandi að hitta allt þetta fólk, vinna með öðrum og sjá gleðina og metnaðinn í þátttakendum. En maður verður líka að leggja mikið á sig til að allt gangi upp,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts, sem hélt Unglingalandsmót UMFÍ ásamt UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.

 

Vann í sjoppunni og dæmdi í leikjum

Jóhanna gekk í öll möguleg störf sem mannskap vantaði í um helgina, skráði niður úrslit í blaki og stóð vakt í einni af sjoppunum á mótinu og allt annað sem þurfti. Þar að auki hélt hún ávarp við slit mótsins. Þegar ljósmyndara bar að á sunnudeginum hafði hún setið lengi á einum af þremur völlunum þar sem keppt var í strandhandbolta og haldið þar niðri marki sem hafði losnað í hita leiksins. Halda þurfti markinu niðri svo hægt væri að halda leiknum áfram. 

Í ávarpi sínu við slit Unglingalandsmótsins á sunnudagskvöld sagði Jóhanna Íris frábært að halda svona mót þar sem ný vinasambönd verði til og yndislegt sé að sjá gleðina í andlitum þátttakenda. Það sé ungmennafélagsandinn í hnotskurn. En auðvitað sé ómögulegt að halda mót sem þetta án sjálfboðaliða sem lyfti Grettistaki saman.

Jóhanna segir að þótt erfitt geti verið að ganga í öll störf þá verði einhver að gera það.

„Það er svolítið öðruvísi að halda mót í fótbolta eða frjálsíþróttamót þar sem allir vinna að sömu greininni. Hér voru um 20 greinar í boði og þá þarf gríðarlega mikið og gott skipulag svo enginn rekist á. Sjálfboðaliðarnir eru alveg magnaðir og geta gengið í hvaða störf sem er. Mér finnst það vera forréttindi að vera formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts. En í þeirri stöðu þá verður maður að leggja hart að sér svo allt gangi upp,“ segir Jóhanna sem er aðeins 32 ára.

 

Allir þátttakendur til fyrirmyndar

Hún bætir við að það hafi verið yndislegt stund að standa á íþróttavellinum og horfa upp í brekkuna við Sindravöll og sjá hvað mótsgestir skemmtu sér vel við slit Unglingalandsmótsins í gærkvöldi.

„Ég fylltist stolti af öllum gestunum okkar sem völdu að verja verslunarmannahelginni með okkur á Unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði, þar sem foreldrar og börn skemmtu sér saman í öruggu og frábæru umhverfi þar sem gleðin var við völd,“ segir hún. Sjálf tók Jóhanna virkan þátt í hreinsun og frágangi eftir Unglingalandsmótið. Hún segir mótsgesti hafa verið til fyrirmyndar:

„Allir sem eru að ganga frá eru sammála um að umgengni á tjaldsvæðinu og mótssvæðinu öllu hafi verið til fyrirmyndar. Ekker rusl og ekkert drasl. Við þurfum ekki að hreinsa neitt!“

 

Hér má sjá nokkrar myndir við frágang Unglingalandsmótsins og grillveislu sem haldin var fyrir sjálfboðaliða frá Höfn. Þar má jafnframt sjá Jóhönnu Íris halda niðri marki í leik í strandhandbolta.