06. mars 2020

Fyrirtækjaboðhlaup BYKO í fyrsta sinn í Kópavogi

„Okkur hjá BYKO finnst Íþróttaveisla UMFÍ ótrúlega jákvæður og upplífgandi viðburður. Við höfum mikla trú á að veislan styrki Kópavog og viljum gera allt til að auka hreyfingu og lýðheilsu í bænum,” segir Árni Reynir Alfreðsson, markaðsstjóri BYKO.

BYKO er aðalstyrktaraðili Fyrirtækjaboðhlaups BYKO sem haldið verður á fyrsta degi Íþróttaveislunnar sem fram fer í Kópavogi dagana 26.-28. júní 2020. 

Rætt er við Árna í Kópavogspóstinum í vikunni.

Fyrirtækjaboðhlaupið er viðburður í Íþróttaveislunni fyrir fyrirtæki, samtök og vini sem vilja gera sér glaðan dag. Áherslan í hlaupinu er gleði, vinskapur, liðsvinna og auðvitað hlaupaánægja.

Hlaupaleiðin er þægilegur 16 kílómetra langur hringur. Í hverju liði eru fjórir keppendur og því gert ráð fyrir að hver þátttakandi hlaupi fjóra kílómetra. Það sem gerir hlaupið enn skemmtilegra er að rás- og endamark eru á sama stað og því hægt að njóta skemmtunarinnar með samstarfsfélögum við upphaf og enda hlaupsins.

 

Styrkja jákvæð verkefni á heimavelli

Árni segist hafa verið upp með sér þegar UMFÍ leitaði til BYKO.

„Hreyfing er orðin ríkur hluti af daglegu lífi fólks. Við höfum alltaf styrkt jákvæð verkefni á heimavelli okkar í Kópavogi, höfum í gegnum tíðina verið í miklum samskiptum við íþróttafélögin í Kópavogi og verið styrktaraðilar þeirra. Okkur hjá BYKO er líka mjög umhugað um heilsuna og hvetjum starfsfólk okkar til hreyfingar, að ganga og hjóla og nýta allskonar mannknúin ökutæki til að komast til og frá vinnu. Því til viðbótar hvetjum við til líkamsræktar og veitum styrki til þess. Við höfum líka verið með lið í Wow Cyclothoninu og verðum með tvö lið í Síminn Cyclothon. Það vill reyndar svo til að hjólreiðafólkið er að koma í mark sama dag og Fyrirtækjaboðhlaupið er. Ég er búinn að lofa tveimur keppnismönnum að þegar þeir verði búnir að hjóla hringinn í kringum landið þá geti þeir mætt beint í Fyrirtækjaboðhlaup BYKO í Kópavogi,” segir hann brosandi.

 

Njótum upplifunar saman

Árni segir fyrirtækjamenningu hafa breyst mikið í gegnum árin. Þróunin sé frábær því hún snúist að miklu leyti um að hreyfa sig með öðrum og að starfsfólk njóti upplifunar saman. Því sé einkar ánægjulegt að Kópavogur hafi gripið tækifærið til að gera fjölbreyttri hreyfingu hátt undir höfði. Öll aðstaða sé líka frábær í Kópavogi fyrir viðburð eins og Íþróttaveisluna.

„Þetta verður frábær upplifun í Kópavogi. Við hvetjum að sjálfsögðu sem flest fyrirtæki að
mæta í Íþróttaveisluna og hafa fulltrúa í Fyrirtækjahlaupinu,” segir Árni.

Nánari upplýsingar um Íþróttaveisluna má finna á ithrottaveisla.
is og um Fyrirtækjaboðhlaup BYKO á bodhlaup.is.