07. júní 2021

Geir Kristinn endurkjörinn formaður ÍBA

„Við ætluðum að hafa þingið okkar árið 2020 og frestuðum því. En við gátum ekki gert það lengur og ákváðum að hafa það á ZOOM þótt ákall hafi verið um að hafa það ekki með þeim hætti. Við verðum með öflugra þing næst vor,“ segir Helgi Rúnar Bragason, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA).

Ársþing bandalagsins var haldið 29. apríl, aðeins helstu mál voru á dagskrá, fundarstörfin hefðbundin og beðið með ýmsar lagabreytingar, að sögn Helga.

Aðstæðurnar endurspeglast í ávarpi Geirs Kristins Aðalsteinssonar, formanns ÍBA, við setningu þingsins. Hann sagði að vegna óvenjulegra aðstæðna hefði þingið frestast um eitt ár og að tillögur yrðu lagðar fram án þess að þær fari sérstaklega til umræðu í nefndum. Þá greindi hann frá því að ársþing yrði haldið vorið 2022.

Minnst var látinna félaga KA og Þórs og sundfélagsins Óðins.

 

 

Geir Kristinn, sem var endurkjörinn formaður ÍBA, flutti að því loknu skýrslu stjórnar. Hann sagði þar m.a. að umfang ÍBA hafi aukist og verkefnum fjölgað. Aukinn þungi væri í sameiningarmálum íþróttafélaga á Akureyri sem væri í samræmi við íþróttastefnu Akureyrar.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, var gestur á þinginu og ávarpaði það. Hann greindi frá stefnumótun UMFÍ sem nú stendur yfir og þátttöku fulltrúa ÍBA í þeirri vinnu. Sagði hann stefnt að því að leggja nýja stefnu UMFÍ fyrir á sambandsþingi UMFÍ í október.

Þá sagði Haukur það áhyggjuefni hversu háar fjárhæðir fari úr landi í gegnum erlendar veðmálasíður. Íþróttahreyfingin njót ekki neinna tekna af því. Hvatti hann jafnframt félög ÍBA til að hluta vel að baklandi sínu og sjálfboðaliðum.

 

Lesa fundargerð ÍBA

Heimasíða ÍBA