03. janúar 2019

Gott að leyfa fólki að koma og prófa nýjar greinar

„Þetta er að ganga alveg ljómandi vel. En ég held að þetta sé mikið til heppni,“ segir Kristján G. Sigurðsson, bogfimiþjálfari og aðalsprauta bogfimideildarinnar á Ísafirði. Skotíþróttafélag Ísafjarðar hlaut hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar 2018. Félagið á sér langa og öfluga sögu og er með um 100 félagsmenn. Verðlaunin fékk félagið fyrir öflugt starf bogfimideildarinnar sem stofnuð var innan Skotíþróttafélagsins á fyrri hluta árs 2015. Skotíþróttafélag Ísafjarðar er aðildarfélag Héraðssambands Vestfirðinga (HSV), sambandsaðila UMFÍ.

Við sama tækifæri var knattspyrnumaðurinn Elmar Atli Garðarsson í Vestra útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2018. Hér má sjá Kristján ásamt Vali Richter frá Skotíþróttafálagi Ísafjarðarbæjar taka við hvatningarverðlaununum.

 

 

Kristján er fyrir hönd bogfimideildarinnar og Skotíþróttafélagsins hæstánægður með Hvatningarverðlaunin. Félagið hafi á tiltölulega skömmum tíma náð að festa sig í sessi sem nýr möguleiki í íþróttaástundum íbúa Ísafjarðarbæjar, sem hafi nú þegar um mikið að velja.

Hann segir nokkra þætti skipta máli fyrir deildina sem skýri góðan uppgang hennar.

„Ég hef verið duglegur að fá fólk til að koma og prófa. Öllum finnst það gaman. Starfsmannafélög og vinnuhópar koma mikið og það skilar sér í iðkendum. Svo þarf fólk ekki að eiga boga og annan búnað því við lánum allt, boga, örvar og skotmörk og bjóðum upp á heimilislega góða aðstöðu undir stúkunni á Torfunesi,“ segir hann en bætir við að hann hafi lítið auglýst deildina. Facebook sjái um dreifinguna.

 

 

„Það gerði gæfumuninn fyrir deildina að setja upp Facebook-síðu. Þar segi ég frá því helsta hjá okkur og því skemmtilega sem ég finn. Fólk fylgist með og deilir fyrir deildina. Það vefur utan á sig. Facebook þrælvirkar og vakið athygli á okkur út fyrir svæðið,“ segir hann.  

 

Bogfimideildin á Facebook