30. júní 2019

Grátt í fjöllum í Norðfirði

„Grái fjallahringurinn myndar afskaplega fallega umgjörð. Þetta er góður dagur svo lengi sem hann blæs ekki,“ segir íþróttakennarinn Flemming Jessen þar sem hann stendur á Grænanesvelli, golfvellinum í Neskaupstað. Flemming var á meðal fjölda þátttakenda í pútti á Landsmóti UMFÍ 50+ í Neskaupstað sem fram hefur farið alla helgina.

Þegar þátttakendur komu á völlinn í morgun var grátt í fjöllum í Norðfirði, nokkuð kalt og súldarvottur. Heldur hlýnaði eftir því sem leið á morguninn og tók sólin að skína á ný.

Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað hefur farið afskaplega vel fram og gleðin í fyrirrúmi. Mótið hófst á föstudag og hafa um 300 þátttakendur tekið þátt í fjölda keppnisgreina og prófað margar aðrar. Þar á meðal crossnet, sem kynnt var til sögunnar á Íslandi á laugardag. Í gærkvöldi var svo skemmtikvöld í Egilsbúð sem næstum allir þátttakendur sóttu.