20. júlí 2020

Guðmunda er nýr framkvæmdastjóri ÍA

Guðmunda Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA). Hún tekur við starfinu af Hildi Karen Aðalsteinsdóttur sem hverfur til annarra starfa. Guðmunda kemur Íþróttafélagi Reykjavíkur þar sem hún var verkefnastjóri / framkvæmdastjóri tímabundið en áður starfaði hún sem fjármálastjóri hjá Iðnvélum og sem framkvæmdastjóri Next á Íslandi. Guðmunda hefur lokið MBA gráðu frá Háskóla Íslands á sviði nýsköpunar og stjórnunar.

Guðmunda þekkir vel til íþróttastarfs en hún hefur komið að íþróttastarfi á mörgum sviðum í hartnær tuttugu ár, setið í aðalstjórn KR, stýrt verkefni um eflingu kvennastarfs innan KR og stýrt vinnu við umsókn til ÍSÍ um fyrirmyndafélag. Lokaverkefni Guðmundu í MBA náminu var stefnumótun KR í heild fyrir árin 2019-2024.

Fram kemur á vefsíðu ÍA að Guðmunda tekur formlega til starfa 10. ágúst.

Á myndinni hér að ofan sem er af vefsíðu ÍA má sjá Guðmundu með Marellu Steinsdóttur, formanni Íþróttabandalags Akraness.