15. mars 2019

Guðríður sæmd gullmerki UMFÍ

Guðríður Aadnegard, formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), var sæmd gullmerki UMFÍ á þingi sambandsins í gær. Á sama tíma fengu starfsmerki UMFÍ þau Jóhanna Hlöðversdóttir, Sigríður Anna Gujónsdóttir og Guðmann Óskar Magnússon. Á myndum með þeim er Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, sem veitti merkin á þinginu.

Guðríður Aadnegard er fædd og uppalin á Sauðárkróki og tók þátt í frjálsum íþróttum og handknattleik á unga aldri. Hún fluttist til Hveragerðis árið 1989 og hefur búið þar síðan. Hún starfaði í nokkur ár með körfuknattleiksdeild Hamars í Hveragerði eftir að hún flutti þangað og var síðan formaður Íþróttafélagsins Hamars árini 2002– 2011.  Guðríður var kjörin í varastjórn HSK árið 2000 og varð svo ritari sambandsins árið eftir. Því embætti gegndi hún til ársins 2010 er hún var kjörinn formaður HSK. Hún hefur því verið í stjórn HSK í tæp tuttugu ár.

Guðríður þykir dugnaðarforkur í félagsmálum, sjálfstæð, ósérhlífin og vinnusöm og því eftirsótt til félagsstarfa. Hún hefur setið í ótal nefndum og ráðum innan UMFÍ.

Eins og áður sagði hlutu starfsmerki UMFÍ þau Sigríður Anna Guðjónsdóttir frá Umf. Selfossi, Jóhanna Hlöðversdóttir frá Íþróttafélaginu Garpi og Guðmann Óskar Magnússon, Íþróttafélaginu Dímoni.

 

Sigríður Anna 

Sigríður Anna hefur um langt árabil verið virk í frjálsíþróttastarfi innan HSK. Hún hefur verið þjálfari og auk þess komið að framkvæmd Unglingalandsmóts og Landsmóts UMFÍ. Sigríður Anna hefur einnig tekið virkan þátt í störfum frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss bæði sem þjálfari og stjórnandi.

 

Jóhanna 

Jóhanna hefur um árabil starfað innan Íþróttafélagsins Garps og er núverandi formaður félagsins. Hún er einnig formaður Ungmennafélagsins Merkihvols sem m.a. vinnur að endurbótum á Brúarlundi sem er samkomuhús félagsins.

 

Guðmann 

Guðmann Óskar hefur tekið þátt í íþróttastarfi á Hvolsvelli og undir Eyjafjöllum frá unga aldri. Hann hefur einnig starfað með frjálsíþróttaráði HSK og var um tíma gjaldkeri ráðsins. Guðmann Óskar hefur jafnframt átt sæti í stjórn Dímonar og stjórnum deilda félagsins. Hann er núverandi formaður UBH og einnig formaður borðtennisdeildar Dímonar.

 

Myndirnar frá þingi HSK tók Guðmundur Karl Sigurdórsson.