25. júní 2021

Guðrún: Gleði á Selfossi með afléttingu takmarkana

„Þetta eru miklar gleðifréttir og tilefni til að flagga enda einfaldar aflétting samkomutakmarkana allan undirbúning hjá okkur við Unglingalandsmót UMFÍ. Það breytir öllu að við þurfum ekki að hafa áhyggjur,“ segir Guðrún Tryggvadóttir, verkefnastjóri við Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Gert er ráð fyrir þúsundum þátttakenda á aldrinum 11-19 ára og foreldrum og forráðamönnum þeirra auk systkina.

 

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því fyrir hádegi í dag að frá og með morgundeginum muni allar takmarkanir á samkomum innanlands falla úr gildi. Í því felst að samkomur verða ekki háðar öðrum takmörkunum en þeim sem almennt giltu í samfélaginu áður en heimsfaraldurinn skall á fyrir rúmu ári, grímuskylda fellur niður, engar fjarlægðartakmarkanir verða lengur í gildi á milli fólks og mega eins margir koma saman og vilja.

Haft er eftir Svandísi á vefsíðu Stjórnarráðsins, að í raun sé fólk að endurheima á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð frá því samkomutakmarkanir  voru settar á.

 

Fjölskyldan saman um verslunarmannahelgina

Guðrún segir fjölskyldufólk orðið mjög spennt fyrir sumrinu og viðburðum eins og Unglingalandsmótinu þar sem allir geti skemmt sér saman um verslunarmannahelgina.

Mótinu var frestað í fyrra og var búið að grípa til ýmissa varúðarráðstafana vegna mótsins á Selfossi nú um verslunarmannahelgina. Guðrún segist himinlifandi yfir afléttingunni.

„Undir niðri hélt maður að afléttingin yrði hægari og minni í sniðum. Þess vegar var það gleðiefni að öllu var aflétt. Nú verður allt miklu léttara í skipulagningu mótsins. Við munum auðvitað eftir sem áður fara að öllu með gát,“ segir hún.

 

 

Ákvörðun um afléttingu allra samkomutakmarkana er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þann 1. júlí taka svo gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.

Forsendurnar fyrir afléttingunni eru þær að um 87% þeirra sem áformað er að bólusetja hafa nú fengið a.m.k. eina sprautu, um 60% eru fullbólusett gegn COVID-19 og nú ættu öll sem ekki var áður búið að bjóða bólusetningu að hafa fengið slíkt boð. Áætlanir stjórnvalda um framgang bólusetningar og afléttingu samkomutakmarkana hafa því gengið eftir að fullu.

Aflétting heilbrigðisráðherra byggir á minnisblaði sóttvarnalæknis sem sjá má hér að neðan um afléttingu innanlands og um landamæri. Ekki er hins vegar búið að birta reglugerð ráðherra um afléttinguna.

Minnisblað sóttvarnalæknis um afléttingar innanlands

Minnisblað sóttvarnalæknis um landamæri

 

Skráning hefst 1. júlí

Skráningargjald á Unglingalandsmót UMFÍ er 7.900 krónur og geta þátttakendur tekið fyrir það þátt í eins mörgum greinum og viðkomandi vill. Allir á aldrinum 11-19 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráður í ungmenna- eða íþróttafélag til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ. Það eina sem þarf er gleðin sem felst í því að vera með.

Inni í þátttökugjaldinu er gisting á tjaldsvæði mótsgesta en greiða þarf fyrir aðgang að rafmagni.

 

Allar upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ og skráning er að finna á: www.ulm.is

Facebook-síða Unglingalandsmóts UMFÍ