01. mars 2019

Gunni Helga sæmdur starfsmerki UMFÍ

Gunnar Júlíus Helgason var sæmdur starfsmerki UMFÍ á aðalfundi Ungmennafélags Þróttar á miðvikudag. Guðmundur Sigurbergsson, sem situr í stjórn UMFÍ, mætti á fundinn og sæmdi Gunnar starfsmerkinu. 

Fram kom í máli Guðmundar að Gunnar hefur verið virkur félagsmaður UMFÞ og sinnt hinum ýmsum grasrótarverkefnum frá unga aldri. 

Gunnar fór í stjórn UMFÞ ungur að árum og varð formaður félagsins árið 1993 aðeins 19 ára gamall. Fram að þeim tíma hafði hann verið iðkandi, sjálfboðaliði, þjálfari og sinnt hinum ýmsu verkefnum fyrir Þrótt.  

Gunnar er einn af fáum sem hefur spilað mótsleiki í körfubolta, handbolta og knattspyrnu undir merkjum Þróttar og var einn af frumkvöðlum handboltaævintýrsins árið 2004 þegar Þróttur sendi lið til leiks í bikarkeppni HSÍ „uppá grínið“. Það rataði í fjölmiðla við mikla kátínu Vogabúa og annara handboltaunnenda. Í ljósi þess að um var að ræða heimamenn sem aldrei höfðu æft handbolta áður. 

Gunnar spilaði fyrir meistaraflokk Þróttar í knattspyrnu á sínum tíma og varð fyrsti leikmaður í sögu félagsins til að ná 100 leikjum. Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar Þróttar til fjölda ára og hefur komið að hinum ýmsu verkefnum í uppgangi félagsins. Þegar meistaraflokkur var endurvakinn árið 2008 og Vogavöllur ekki í ástandi til að taka á móti leikjum tók Gunnar að sér verkefnið í sjálfboðaliðastarfi án allar aðkomu UMFÞ og sveitarfélagsins á þeim tíma. Völlurinn stóðst prófið og Þróttur fékk að spila heimaleiki í Vogum á undanþágu næstu árin. 

Árið 2007 fór Gunnar svo í áheitagöngu til styrktar UMFÞ með frænda sínum Hilmari Sveinbjörnssyni. Gengu þeir félagar þvert yfir Ísland 680 kílómetraleið og tók ferðalagið tuttugu daga.  

Gunnar tók við formennsku í Þrótti á ný árið 2015 og setið í stjórn félagsins síðustu árin.

 

Sjá líka: Petra er nýr formaður Ungmennafélagsins Þróttar