22. október 2021

Haukur sæmdur gullmerkjum og fékk Heiðursskjöld

Haukur Valtýsson hlaut fjölda viðurkenninga á síðasta þingi sem formaður UMFÍ á Húsavík um síðustu helgi. Jóhann Steinar Ingimundarson, sem tók við formannsembættinu af honum á þinginu, sæmdi hann gullmerki UMFÍ, Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ, sem var gestur þingsins ásamt Andra Stefánssyni, settum framkvæmdastjóra ÍSÍ, sæmdi Hauk gullmerki ÍSÍ. Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri stjórnar UMFÍ og formaður Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), afhenti svo Hauki Heiðursskjöld UMSK.  

Guðmundur sagði Hauk hafa verið farsælan formann sem hafi komið inn í stjórn UMFÍ fyrir áratug og áunnið sér virðingu og vináttu bæði innan og utan ungmennafélagshreyfingarinnar.

„Það er ekki alltaf auðvelt að verkstýra tíu manna stjórn eða vera í forsvari fyrir stórri fjöldahreyfingu.  En Haukur hefur gert það með sóma og áunnið sér virðingu og vináttu bæði innan hreyfingarinnar og utan og um leið markað djúp spor í sögu UMFÍ.

Stjórn UMSK vill þakka Hauki fyrir farsæl störf í þágu íþróttahreyfingarinnar með því að færa honum Heiðursskjöld UMSK.  Þeir eru ekki margir sem hafa hlotið þessa viðurkeningu en stjórn UMSK var einhuga um að hún ætti heima í höndum Hauks,‟ sagði Guðmundur í ávarpi sínu.