15. október 2021

Haukur Valtýsson: Bætt lýðheilsa þarf að fá meira rými á Alþingi

„Gleðin í hreyfingu, bætt lýðheilsa og betra samfélag þarf að fá meira rými á Alþingi, sveitarstjórnarfólk þarf að gera sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar og lýðheilsu og möguleika íþróttafélaga um allt land til að sinna því,‟ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.

Haukur hélt ávarp við setningu 52. Sambandsþings UMFÍ á Húsavík í dag. Þingið var sett í kvöld og stendur yfir helgina. Rúmlega hundrað þingfulltrúar aðildarfélaga UMFÍ af öllu landinu sitja þingið og ræða saman um fjölmörg málefni sem tengjast ungmennafélagshreyfingunni, þar á meðal því hvernig hægt er að bæta lýðheilsu landsmanna og starf íþróttafélaga. Umræðuefnin eru af ýmsu tagi og hefur fólk um margt að ræða enda 450 aðildarfélög innan UMFÍ, þar af öll helstu íþróttafélög landsins.

 

Íþróttafélögin vinni með stjórnvöldum

Hauki var í ávarpi sínu tíðrætt um lýðheilsu, sérstaklega barna sem hefur verið í kastljósinu upp á síðkastið. Stjórnvöld og íþróttafélögin þurfi að ræða saman um málið og fara í það af krafti, að sögn Hauks, sem benti á að heilsa allra skipti máli, ekki bara barna heldur eldri borgara sömuleiðis.

„Við höfum verkfærin sem þarf til þess að bregðast við stórum samfélagslegum áskorunum. Við þurfum að auka samvinnu til að ná til fleiri og deila reynslu. Ungmennafélagsandinn er alltumlykjandi. Með hann að leiðarljósi og lýðheilsuna í lagi er hægt að koma fólki á hreyfingu, bæta lífsstíl þess og lækka kostnað heilbrigðiskerfisins. Við í ungmennafélagshreyfingunni erum samfélagslegt afl. Þegar við látum til okkar taka saman er lagt við hlustir. Þegar við brettum upp ermar fara hlutir á hreyfingu. Við erum samfélaginu til góða,‟ sagði Haukur.  

 

Stígur sáttur frá borði

Þetta var síðasta setningarávarp Hauks en hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem formaður. Hann hefur setið í tíu ár í stjórn UMFÍ, þar af í sex sem formaður.

„Ég stíg mjög sáttur frá borði. Viðhorf til ungmennafélagshreyfingarinnar er gott, tengslin og samvinnan á milli sambandsaðila sívaxandi. Það endurspeglast í góðum verkum UMFÍ,‟ hélt hann áfram.

Fleira efni tengt sambandsþingi UMFÍ

Ávarp Hauks í heild sinni.

 

                            Setningarávarp 52. sambandsþings UMFÍ 2021.

Verið velkomin á 52. Sambandsþing Ungmennafélags Íslands hér á Húsavík. 

Kjörtímabili sitjandi stjórnar UMFÍ er nú að ljúka. Það hófst með venjubundnum hætti og stefndi í að við myndum sinna vinnu okkar eins og venja er. En annað átti eftir að koma á daginn.

Aðeins tveimur mánuðum eftir sambandsþingið fór COVID-veiran á kreik um heimsbyggðina. Hún hefur nú raskað lífi flestra í að verða tvö ár.

Það er ekki ætlun mín að dvelja við COVID-væl. Þvert á móti horfum við í ungmennafélagshreyfingunni alltaf bjartsýn fram á veg. Þar sem aðrir sjá lokaðar dyr á vegamótum sjáum við tækifæri.

En ekkert gerist af sjálfu sér. Þegar nánast slokknaði á samfélaginu þá kom það harkalega niður á íþróttafélögum um allt land. Við stóðum frammi fyrir geysilegum áskorunum. En stjórnvöld sýndu skjót viðbrögð, hlustuðu á samfélagið og brugðust við með ýmsum ráðum.

Stuðningur stjórnvalda við íþrótta- og æskulýðsstarf er ómetanlegur. Án hans hefði allt orðið erfiðara. Ég veit að þessi stuðningur hefur víða nýst vel og er framsýni stjórnvalda þakkarverð.

Við í stjórn UMFÍ og starfsfólk fundum fyrir aðgerðum gegn útbreiðslu veirunnar.

Í fyrra frestuðum við öllum mótum UMFÍ og ýmsum viðburðum. Það gerðum við aftur á þessu ári.

Unglingalandsmóti UMFÍ, Íþróttaveislunni í Kópavogi og Landsmóti UMFÍ 50+. Við höfum frestað mótunum tvö ár í röð. En mótshaldarar og sjálfboðaliðarnir allir sem hafa frestað viðburðum tvö ár í röð eru enn með ermar brettar upp og reiðubúnir að halda áfram á næsta ári.

En auðvitað kom margt jákvætt út úr þessu öllu saman.

Ungmennaráðstefnunni Ungu fólki og lýðræði var frestað á þessu ári. En í fyrra var hún haldin með breyttu sniði. Hún var í fyrsta sinn í Reykjavík og stóð yfir í aðeins einn dag í stað tveggja. Ef við horfum á björtu hliðarnar þá var ráðstefnan fjölmenn og samræður bæði snarpari og skilvirkari.

Ungmennafélagsandinn eflir bjartsýni og sveigjanleika í erfiðum aðstæðum. Við erum þar. Fundir hafa færst á netið, það fækkar ferðum fólks og dregur úr mengum og svo má lengi telja. En fundir eru líka staðir tengsla. Á fundum eins og hér á sambandsþingum og öðrum viðburðum UMFÍ hittumst við til að ræða málin, treysta böndin, kynnast nýju fólki og búa til ný tengsl. Það getur leitt til nýrra verkefna og betra starfs.

Forsvarsfólk UMFÍ hefur á kjörtímabili sitjandi stjórnar unnið að stefnumótun hreyfingarinnar. Afrakstur vinnunar verður kynntur hér á þinginu. Stjórn UMFÍ vinnur eftir því leiðarljósi að gera ævinlega betur. Stefnumótun UMFÍ, sem hefur farið fram í nánu og góðu samstarfi við sambandsaðila, aðildarfélög og ungmennaráð UMFÍ, ber þess merki enda nauðsyn að uppfæra hana reglulega í takt við tíðarfar og tækni. Sú krafa sem stefna UMFÍ setur okkur felur í sér að því þurfum sífellt að hugsa fram á við, verða hnitmiðaðri, spegla verkefni okkar við samfélagið og vera í takti.

Helst verðum við að vera nokkrum skrefum á undan.

En nú að þinginu.

Mörg mál eru á borðum þingfulltrúa um helgina. Það endurspeglar þau mikilvægu skref sem við stigum saman á sambandsþinginu fyrir tveimur árum þegar þrjú íþróttabandalög komu inn í raðir UMFÍ sem sambandsaðilar. Við þetta tvöfaldaðist umfang UMFÍ. En á sama tíma styrkir það íþróttahreyfinguna gríðarlega. Samstarf í hreyfingunni er mikilvægt og við upplifum að samskiptin séu gagnvirk og góð og saman erum við sterkari málsvari fyrir íþróttastarfið á Íslandi.

Þingið nú er það fyrsta sem nýir sambandsaðilar sitja og mig langar til að bjóða fulltrúa IA, IBA og IBR sérstaklega velkomna til leiks. Við þetta tækifæri er gaman að rifja upp ferð okkar til Danmerkur þar sem við fengum fræðslu um m.a. hvernig félög taka á móti nýjum félögum með árangursríkum hætti. Verið velkomin og ég vænti þess að þið takið hressilega þátt í störfum þingsins og samtakanna.

Í kjölfar stækkunar samtakanna fór einnig af stað vinna sem miðar að uppstokkun á skiptingu arðs frá Íslenskri getspá og Íslenskum getraunum. Það er aðkallandi mál sem ÍSÍ og UMFÍ vinna saman að og eru meðal annars mikilvægt að fái umfjöllun hér um helgina.

Við horfum til enn fleiri þátta sem styrkja starfið.

Í tengslum við uppstokkun á lottófjármagni þarf að skoða breytingu á íþróttahéruðum landsins. Íþróttahéruðin hafa lítið sem ekkert breyst frá myndun þeirra. Það er mikið framfaraskref fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinga að skilgreina hlutverk þeirra betur. Í þeirri vinnu felst jafnframt að samræma ýmsa þætti í starfi íþróttahéraðanna og vinna að því

að jafna stöðu þeirra. Vissulega þurfa UMFÍ og ÍSÍ að vinna náið að því máli en mikilvægast er að fulltrúar íþróttahéraðanna 25 komi að málunum.

Til að koma málefnum íþróttahéraða áleiðis þurfum við stuðning okkar ágætu þingfulltrúa. Ég vænti þess að við ræðum saman um málið með það fyrir augum að bæta framtíðina.

Stefnumótunarvinna UMFÍ krefst þess af okkur í stjórn UMFÍ að vera á tánum, skerpa á áherslum í rekstri og taka upp tækni sem gerir gott starf enn betra. Það getur falið í sér fórnir.

Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, er þar á meðal. Það hefur verið í notkun frá árinu 2004 en er nú komið á endastöð.  Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég fyrir hönd UMFÍ ásamt fulltrúa ÍSÍ undir nýjan samstarfssamning við fyrirtækið Abler, sem margir þekkja. Fyrirtækið vinnur nú að smíði nýrrar skilagáttar fyrir starfsskýrslur ÍSÍ og UMFÍ. Von okkar og þeirra sem að kerfinu standa er að það muni auðvelda mjög öllum skil á starfsskýrslum. Samningurinn felur jafnframt í sér að gerður verður skilagrunnur starfsskýrslna sem ætti að veita fræðasamfélaginu aðgang að margs konar upplýsingum og vinna úr þeim niðurstöður sem vonandi verða til hagsbóta fyrir hreyfinguna og samfélagið. 

Við höfum starfrækt Ungmennabúðir UMFÍ nú bráðum að verða í 20 ár og komin gríðarleg reynsla á starfsemina. Fyrir tveimur árum fluttum við reksturinn á Laugarvatn og aukinn áhugi hefur verið á því hjá íþróttafélögum að leigja aðstöðuna utan skólatíma og nýta hana til fræðslu og æfingabúða fyrir starfsfólk og félagsmenn.

Starfsemi Ungmennabúðanna var takmörkuð í COVID-faraldrinum. Allt starfsfólk þurfti að taka á honum stóra sínum þá. En þökk sé breyttum tímum. Starfsemin er komin á fullt skrið á ný og fullbókað út starfárið.

Á tímabili núverandi stjórnar höfum við lagt áherslu á aukið þjónustustig UMFÍ við sambandsaðila og aðildarfélög. Við höfum látið heyra í okkur. Það er mjög jákvætt fyrir alla. Við tökum þátt í mótun samfélagsins með ritun umsagna við frumvörp til Alþingis. Við leggjum líka mikið á okkur við að auðvelda stjórnendum íþróttahreyfingarinnar að nálgast sakavottorð þjálfara, starfsmanna og fleiri. Við vonumst til þess að með því geri það starf aðildarfélaga auðveldara og erum ávallt tilbúin að hlusta á góðar ábendingar og tillögur um hvernig megi gera enn betur.

Sambandsþingið nú er einstakt á margan  hátt.

Hér komum við saman og höldum áfram að móta framtíðina. Það liggja áhugaverðar tillögur fyrir þinginu og eins munum við ræða málin í málstofum þar sem gefst færi til að deila hugmyndum,  ræða tækifæri og áskoranir.

Við verðum að ræða þessi atriði enda mikilvægt hverjum samtökum að líta inn á við og spegla sig við samtíðina til að geta fótað sig á veginum framundan.

Margt hefur breyst í mótahaldi íþrótttahéraðanna. Við munum flest eftir stórmótum sem héraðssambönd héldu á árum áður. Þetta voru stórir viðburðir sem greyptir eru í minninguna.

En af því að við erum hér stödd á starfssvæðin Héraðssambands Þingeyinga þá langar mig að lesa stutta frásögn af héraðssmóti HSÞ árið 1952.

„Héraðsmót HSÞ var háð  á Laugum fimmtánda júní síðastliðinn. Veður var kalt og þurrt. Formaður HSÞ, Ingi Tryggvason, stjórnaði mótinu en Hróar Björnsson var yfirdómari. Á eftir íþróttakeppninni flutti Bragi Sigurjónsson ræðu. Jóhann Konráðsson söng með aðstoð Áskels Jónssonar og Heiðrekur Guðmundsson las upp frumsamin ljóð. Mótið fór hið besta fram en var fremur fásótt.“

Þetta er kannski falleg lýsing og margir sem kannast vafalítið við hana.

Ég tel að framtíð ungmennafélagshreyfingarinnar sé björt. Hún er afar öflug. Ungmennafélagsandinn er víða og öflugur. Hann lyftir andanum. Kraftinn má skynja í nærsamfélaginu og um allt land.

En málefni hreyfingarinnar þurfa að komast ofar á dagskrá. Gleðin í hreyfingu, bætt lýðheilsa og betra samfélag þarf að fá meira rými á Alþingi, sveitarstjórnarfólk þarf að gera sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar og lýðheilsu og möguleika íþróttafélaga um allt land til að sinna því. Við höfum verkfærin sem þarf til þess að bregðast við stórum samfélagslegum áskorunum. Við þurfum að auka samvinnu til að ná til fleiri og deila reynslu.

Lýðheilsa barna hefur verið í umræðunni upp á síðkastið en ég vil einnig benda á hreyfingu eldri borgara.  Íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin leggur mikið af mörkum til að efla lýðheilsu um allt land en það eru þó tækifæri til að gera enn betur. Þar eru sérfræðingarnir, fólkið sem veit. Fólkið sem hefur viljann til góðra verka.

Ungmennafélagsandinn er alltumlykjandi. Með hann að leiðarljósi og lýðheilsuna í lagi er hægt að koma fólki á hreyfingu, bæta lífsstíl þess og lækka kostnað heilbrigðiskerfisins.

Við í ungmennafélagshreyfingunni erum samfélagslegt afl. Þegar við látum til okkar taka saman er lagt við hlustir. Þegar við brettum upp ermar fara hlutir á hreyfingu. Við erum samfélaginu til góða.

Þannig sé ég framtíð ungmennafélagshreyfingarinnar.

Hún er björt.

Eins og fram hefur komið þá hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram til formennsku í stjórn UMFÍ. Ég er búinn að sitja í stjórninni í áratug, þar af fjögur sem varaformaður og í sex ár sem formaður. 

Ég stíg mjög sáttur frá borði. Viðhorf til ungmennafélagshreyfingarinnar er gott, tengslin og samvinnan á milli sambandsaðila sívaxandi. Það endurspeglast í góðum verkum UMFÍ.

Ég þakka ekki sjálfum mér fyrir þetta. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og starfsfólk okkar undir hennar stjórn ber að þakka breytinguna sem við öll finnum fyrir.

Ég þakka Auði Ingu og starfsfólki UMFÍ kærlega fyrir samstarfið. Ég þakka líka samstarfið við stjórn UMFÍ, sem hefur verið afar samstíga.

Samheldnin innan stjórnar UMFÍ og í ungmennafélagshreyfingunni reyndar allri eykur ánægju okkar sem höfum staðið í fremstu víglínu. Ánægjan skilar því að við erum alltaf tilbúin til að verja stórum hluta af frítíma okkar í störf fyrir ungmennafélagshreyfinguna. Meira að segja aðal starf mitt, hefur farið aftar í röðina í gegnum árin.

En hvað um það.

Starfið innan UMFÍ á að vera skemmtilegt. Meira að segja þegar gefur á bátinn og erfið mál eru á borðum.

En við megum ekki loka augunum fyrir þeim.

Einu sinni þurfti ég að leita ráða hjá manni sem starfaði lengi innan íþróttahreyfingarinnar. Hann var læknir, eins og ég. En erfitt reyndist stundum að hafa upp á kappanum.

Þegar ég hitti loks á hann þá gaf hann mér ráð:

„Ef þú þarft að ná í mig, segðu þá við afgreiðsluna hver þú ert og að málið snúist um íþróttir. Þá svara ég örugglega!“

Ég fékk þessar leiðbeiningar lánaðar hjá honum og gaf þær mínu starfsfólki ef einhver þurfti að ná í mig í miðri rótarfyllingu. Þá yrði málið að snúast um UMFÍ.

En nú fer ég kannski að taka töngina og borinn oftar upp á næstunni.

Þetta verður síðasta ávarp mitt sem formaður UMFÍ.

Ég þakka kærlega fyrir mig og óska ungmennafélagshreyfingunni okkar alls hins besta. Ég veit að hún er í öruggum höndum.

Nú tekur framtíðin við.

Ég segi 52. Sambandsþing Ungmennafélags Íslands sett hér á Húsavík.