05. ágúst 2018

Haukur Valtýsson: Unglingalandsmót er besta forvörnin

„Forvarnir eru fjárfesting, forvarnir eru fjárfesting til framtíðar í betra lífi viðkomandi einstaklinga, hvort heldur er í því að forða eða seinka því að ungt fólk komist í kynni við hin ýmsu vímuefni sem í boði eru í samfélagi okkar í dag,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ. Hann hélt ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn í gær, laugardag, og kom þar inn á að þegar ákveðið var að halda mótið í fyrsta sinn hafi verið að leita mótvægis við aðrar útihátíðir.

„Þó margar útihátíðir séu haldnar um þessa helgi, þá er það nú orðið sjálfsagt mál að unglingalandsmótið sé einnig haldið á sama tíma,“ sagði Haukur.

Unglingadrykkja var útbreidd á Íslandi á árum áður. Gripið var til ýmissa aðgerða til að draga úr henni. Unglingalandsmót UMFÍ var ein þeirra aðgerða. Þá er ljóst að á mótinu verja fjölskyldur helginni saman á heilbrigðum forsendum. Góð forvörn er falin í slíku móti og hefur það skipað sér sess sem ein af helstu forvarnarverkefnunum.

„Við skulum horfa til þess að við erum að varðveita og verja meiri mannauð með því að vinna að meiri og víðtækari forvörnum, fyrir okkar ungu kynslóðir en mikill mannauður er að tapast við það þegar ungt fólk ánetjast fíkniefnum. Það eru einnig margir aðrir þættir forvarna sem skila sér hér til alls þess unga fólks sem er að taka þátt í mótinu. Við getum nefnt til dæmis að börn og unglingar kynnast og prófa íþróttir sem þau hafa ekki þekkt áður og eru kannski að finna sína íþrótt hér,“ sagði Haukur.

Haukur fjallaði jafnframt um mikilvægan hlut sjálfboðaliða á mótum eins og Unglingalandsmóti UMFÍ. Þeir eur fjölmargir í Þorlákshöfn og létu rigningu ekki á sig fá á föstudag.

„Hér eru mjög margir sjálfboðaliðar að vinna að því að gera þetta mót framkvæmanlegt. Munum að þeir eru að fórna tíma sínum fyrir okkur hin og fyrir það ber að þakka og virða þeirra starf. Og eitt mikilvægt atriði, dómarar eru hér að störfum í öllum keppnum og við skulum bera virðingu fyrir þeim Dómarar eru nefnilega líka fólk.“

Haukur sagði líka alla aðstöðu í Þorlákshöfn til fyrirmyndar og þakkaði bæði sveitarfélaginu fyrir framlagið, HSK, sem er framkvæmdaaðili mótsins og öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu Unglingalandsmótið og gerðu það að veruleika.