24. júní 2020

Hlutagreiðsluleiðin gildir ekki fyrir íþróttafélög í júní

Íþróttafélög hafa ekki getað nýtt sér hlutagreiðsluleiðina fyrir starfsfólk sitt frá síðustu mánaðamótum (þ.e. 1. júní síðastliðnum) og eiga starfsmenn þeirra ekki rétt til atvinnuleysisbóta eftir það samhliða minnkuðu starfshlutfalli, samkvæmt breytingum á hlutabótaleiðinni. Í stuttu máli gildir hlutabótaleiðin ekki í júní.

UMFÍ vekur athygli á því að breytingin á við um starfsmenn óskattskyldra aðila, eins og t.d. sveitarfélaga, íþróttafélaga, líknarfélaga o.fl. sem eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu hlutfalli, að því er fram kemur á vef Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þarf atvinnurekandi nú í kjölfarið að færa starfsmann í skertu starfshlutfalli í fyrra horf, semja við hann um nýtt starfshlutfall eða segja viðkomandi upp. Komi til uppsagnar er mögulegt að sækja um greiðslur frá hinu opinbera með aðstoð skattayfirvalda. Það fellur í hlut atvinnurekanda að leita eftir aðstoðinni.

Í þeim tilvikum þar sem starfsmaður viðkomandi félags er færður í sitt fyrra starfshlutfall þarf launþegi að fara á minarsidur á vefsíðu Vinnumálastofnunar og skrá sig af atvinnuleysisbótum frá 1. júní síðastliðnum. Að því loknu þarf hann að smella á hnappinn „senda“ til að upplýsingarnar komist til skila.

Atvinnurekandi þarf að sama skapi að afturkalla hlutagreiðsluleiðina.

 

Auglýsingin á vefsíðu Vinnumálastofnunar: