12. október 2019

Hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ 2019

Þrír sambandsaðilar UMFÍ voru á sambandsþingi UMFÍ heiðraðir með Hvatningarverðlaunum UMFÍ fyrir gott starf.

Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir reiðskóla Hestamannafélagsins Harðar fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun. Þetta var annað árið í röð sem UMSK hlýtur verðlaunin. Á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór á Ísafirði í fyrra hlaut sambandið Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir nýsköpun og nýjungar í starfi á undanförnum árum

Þá hlaut Ungmennasamband Austur-Húnvetninga (USAH) verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og verkefni fyrir eldri borgara og Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) fyrir að stuðla að auknu samstarfi á meðal aðildarfélaga og fyrir að ná vel til barna af erlendum uppruna.

Formenn sambandsaðilanna þriggja tóku við viðurkenningunni fyrir hönd hvers aðila.

Á myndinni eru Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, Rúnar Aðalbjörn Pétursson, formaður USAH, Hjörleifur K. Hjörleifsson, formaður HSH, og Valdimar Leó Friðriksson, formaður UMSK.