03. janúar 2018

Hlynur segir börn ófeimnari ef þau æfa íþróttir á grunnskólaaldri

Hlynur C. Guðmundsson, frjálsíþróttaþjálfari Aftureldingar í Mosfellsbæ, hefur um árabil kennt börnum íþróttir og tómstundir í 1.–4. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar. Hann segir það skila sér í ófeimnari og opnari ungmennum.

„Ég er sannfærður um að ungmenni búa að þeirri þekkingu á íþróttum sem þau fá í æsku. Hún nýtist þeim og minni líkur verða á því að þau leiðist út á óæskilegar  brautir, hvað þá að þau brjóti af sér. Frístundakynning í æsku eykur líkurnar á því að ungmennin stundi heilbrigðari lífsstíl,“ segir Hlynur C. Guðmundsson, frjálsíþróttaþjálfari Aftureldingar í Mosfellsbæ. 

Hann hefur á síðastliðnum 20 árum skipulagt og stýrt Íþróttafjöri fyrir börn í Mosfellsbæ. Hugmyndina segir hann hafa komið upp fyrir síðustu aldamót þegar hann sá hvert virtist stefna í forvörnum í bænum. „Íþróttalífið var orðið nokkuð staðnað í Mosfellsbæ árið 1997. Fá börn og ungmenni voru í skipulögðu tómstunda- og æskulýðsstarfi og lítið var að gerast á þeim vettvangi. Ég fór varla orðið á heimaleiki hjá Aftureldingu því að ég þekkti fáa í liðinu. Svo urðu til hópar 12–15 ára unglinga sem slæptust og þvældust um og höfðu ekkert fyrir stafni,“ segir Hlynur.

Hann átti ungling á þessum tíma og fór nokkrum sinnum í foreldrarölt með öðrum að kvöldi til.

„Krakkarnir hittust í sjoppu í miðbænum á kvöldin og þau áttu sér sína staði. Við fórum á nokkra staði og ræddum við þá. Mér þótti þetta leiðinlegt að sjá enda kannaðist ég við krakkana úr skólastarfinu í bænum,“ segir Hlynur.

Hann fór að spjalla við krakkana og hlusta eftir því hvort þau ættu sér einhverjar tómstundir á daginn og um helgar. Svo reyndist ekki vera. 

„Það var eins og þau langaði til að vera í íþróttum eða tómstundum en væru feimin við það á þessum aldri,“ segir Hlynur og tók að brjóta heilann um það hvað hann gæti gert til að ungmennin yrðu opnari og hefðu eitthvað skapandi að fást við.

40–50 börn á dag

Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar, og Hlynur ræddu saman og fengu þá hugmynd sem enn er unnið eftir. Í henni fólst að bjóða börnum í fyrstu bekkjum grunnskóla upp á skipulagt tómstundastarf þar sem kynnt voru fyrir þeim grunnatriði í þeim íþróttagreinum sem Afturelding býður upp á og allt tómstundastarf í Mosfellsbæ. Ekki var um skipulagðar æfingar að ræða heldur kynningar þar sem nemendur fengu nasasjón af ýmsum greinum og fengu að prufa.

„Við fórum af stað með þetta sem tilraunaverkefni árið 1998 og það hefur gengið eftir það,“ segir Hlynur og er sáttur við árangurinn nú 19 árum síðar. Í Íþróttafjörið mæta 40–50 börn á dag úr grunnskólum Mosfellsbæjar, um 170–200 í hverri viku. 

Íþróttafjörið fer fram að skóla loknum, í frístundinni, það fellur innan skólastarfsins og því þurfa foreldrarnir ekki að skutla börnunum neitt. Í Íþróttafjörinu eru kynntar ýmsar árstíðabundnar greinar á borð við golf að vori, skák, íslenska glímu, hestamennsku og margt fleira. Yfir háveturinn er einblínt á það íþróttastarf sem Afturelding í Mosfellsbæ býður upp á. Hlynur segir árangurinn stórkostlegan. Ungmennin séu hætt að slæpast á kvöldin og fleiri stundi íþróttir og tómstundir.

„Ég tók eftir því í kringum 2008 að ég var farinn að hafa gaman af því að fara á heimaleiki Aftureldingar til að sjá bæði karla- og kvennaliðin keppa í meistaraflokkum. Þar og sérstaklega síðar sá ég nefnilega marga sem höfðu komið í íþróttafjörið hjá mér og hafa fundið fjölina sína fyrir unglingsárin,“ segir Hlynur C. Guðmundsson.

Íslenska glíman er vinsæl

„Það kom mér mikið á óvart, en íslenska glíman er ein vinsælasta íþróttagreinin sem krakkarnir prófa,“ segir Hlynur. Árið 2006 lét Hlynur útbúa tuttugu glímubelti fyrir börn. Þau eru úr hestataumi með smellulás og hafa staðist tímans tönn.

Glíman er kynnt bæði á haustin og vorin og hafa börnin, bæði kyn, mjög gaman af því að læra brókatök og axlatök, hælkróka og önnur brögð í glímu án þess að meiða. Þetta er kynt sem fyrsta íþróttagrein íslenskra víkinga og þau bera mikla virðingu fyrir henni.

 

Viðtalið við Hlyn C. Guðmundsson birtist í 4. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, sem kom út fyrir jólin. Blaðið er hægt að nálgast á helstu íþróttastöðum landsins, í íþróttamiðstöðvum og sundlaugum. Blaðið er jafnframt hægt að nálgast hér á PDF-formi. 

Smella og lesa blaðið