25. janúar 2019

Hörður Sævar Óskarsson látinn

Hörður Sævar Óskarsson íþróttakennari og fyrrverandi starfsmaður UMFÍ, lést 17. janúar síðastliðinn. Hann verður jarðsunginn frá Áskirkju í Reykjavík í dag, föstudaginn 25. janúar.

Hörður fæddist 1. júlí árið 1932. Hann vann um árabil mikið og gott starf innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann lauk íþróttakennaraprófi árið 1952 og var sundkennari og þjálfari í Sundhöll Hafnarfjarðar 1954-60 og við handknattleiksþjálfun hjá Haukum í Hafnarfirði.

Hörður flutti til Selfoss árið 1960 og tók við starfi forstöðumanns þá nýbyggðar Sundhallar Selfoss. Þar þjálfaði hann og kenndi sund og fleiri íþróttir til ársins 1983. Hann starfaði mikið með Ungmennafélagi Selfoss og sat m.a. í stjórn félagsins í sextán ár. Hann var þar formaður í níu ár.

Hóf störf hjá þjónustumiðstöð Ungmennafélags íslands (UMFÍ) árið 1984 og vann þar til starfsloka árið 1999.

Hörður tók þátt í fjölmörgu félagsstarfi. Hann hefur verið sæmdur starfsmerki UMFÍ, gullmerki Sundfélags Hafnarfjarðar og gullmerki Ungmennafélags Selfoss og var þar heiðursfélagi.

UMFÍ þakkar Herði vel unnin störf og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Hörð ásamt sundliði sem hann þjálfaði árin 1964-1965 á Selfossi. Myndina tók Tómas Jónsson og er hún í eigu Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Myndin hér að neðan er úr Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hún var tekin þegar þjónustumiðstöð UMFÍ flutti í húsnæði í Fellsmúla í Reykjavík árið 1992. Með honum á myndinni eru Pálmi Gíslason, þá formaður UMFÍ, Sæmundur Runólfsson, þáverandi framkvæmdastjóri UMFÍ, og starfsmennirnir Halldóra Gunnarsóttir og Sigrún Sævarsdóttir.