09. maí 2019

Hornfirðingar í góðum gír að undirbúa Unglingalandsmót UMFÍ

„Undirbúningur Unglingalandsmóts UMFÍ gengur mjög vel. Við höfum verið dugleg að hittast og erum vel mönnum með minnst tvo í hverju teymi. En við þurfum alltaf fleiri sjálfboðaliða til að hjálpa til við mótið,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ). Hún var á meðal gesta á íbúafundi á Höfn í Hornafirði í gær þar sem Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, ræddi um undirbúning Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður á Höfn um verslunarmannahelgina.

Jóhanna sagði fundinn hafa verið góðan og sagt frá öllu sem íbúar svæðisins þurfa að hafa í huga. „Við þekkjum það auðvitað ágætlega hvernig er að halda Unglingalandsmót því þetta er í þriðja sinn sem við gerum það. Fólk kannast við flest. En það eru liðin sex ár síðan við héldum mótið síðast og alltaf nýjar greinar sem bætast við,“ segir hún.

 

 

Jóhanna bætir við að sjálfboðaliðum sem vilja vinna á frjálsíþróttavelli standi til boða dómaranámskeið í tvo daga í lok maí til að skerpa á reglunum. 

„Það er nú skemmtilegt frá því að segja að frjálsíþróttadeildin okkar fékk styrk hjá UMFÍ til að halda námskeiðið og mun það nýtast sjálfboðaliðunum vel á Unglingalandsmótinu,“ bætir Jóhanna við.  

Skipulagning mótsins er langt komin og verið að ganga frá lausum endum. Löngu er búið að skipa sérgreinarstjóra mótsins. Þá er afþreyingateymið búið að vera mjög duglegt og ljóst að heitasta tónlistarfólk landsins ætlar að halda uppi stuðinu öll kvöldin á meðan Unglingalandsmótinu stendur á Höfn í Hornafirði.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag til að koma á Unglingalandsmót UMFÍ.

Þátttökugjald er 7.500 krónur.

Skráning á mótið hefst 1. Júlí. Nánari upplýsingar má finna á:

Facebook-síðu Unglingalandsmóts UMFÍ

Vefsíðu mótsins: www.ulm.is

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina 2018.