03. júní 2018

Hreyfingin dregur úr kyrrsetu

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að taka þátt í íþróttum og hreyfingu með vinum mínum,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi og verkefnastjóri Hreyfiviku UMFÍ sem hófst sl. mánudag og lýkur í dag, 3. júní. Sabína ræddi um Hreyfivikuna í viðtali í Morgunblaðið nú um helgina.

Bryddað hefur verið upp á mörgu síðustu daga og þótt formlegri dagskrá ljúki nú halda vafalaust margir áfram að hreyfa sig, enda er slíkt heilsubót fyrir líkama og sál. 

Hreyfivikan er samevrópskt verkefni sem var ýtt úr vör árið 2012 í því skyni að hjálpa fólki sem hreyfir sig lítið að standa upp úr stólnum og bæta lífið með hreyfingu. UMFÍ hefur verið með frá upphafi og hefur verkefnið notið mikilla vinsælda um allt land frá upphafi. 

Boðberar hreyfingar sem skipuleggja viðburði í Hreyfivikunni hafa verið frábærir. Alla viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is. Hægt er að setja inn myndir á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #minhreyfing. Meira en 160 myndir eru undir því merki á Instagram. Það er magnaður fjöldi!

 

Gaman að hreyfa sig

Sabína rifjar upp að markmið Hreyfiviku UMFÍ hafi alltaf verið að draga úr kyrrsetu og auka ánægju fólks af því að hreyfa sig.

„Þetta er ekki átak heldur viðhorf. Hreyfing eykst ekki nema það sé gaman og þegar fólk hreyfir sig meira þá dregur sjálfkrafa úr kyrrsetunni. Það er svo mikilvægt að finna gleðina í hreyfingunni. Þetta hefur tekist svo vel að á mörgum stöðum iðar samfélagið af lífi,“ segir Sabína.

 

Hreyfingarleysi er vá

Sabína segir mikið hafa áunnist með Hreyfiviku UMFÍ.

„Hreyfingarleysi er vá. Æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi þess að hreyfing sé hluti af daglegu lífi. Þá er verið að auka hreyfingu sem hluta af skólalífinu með sama hætti og endurvinnsla þykir í dag sjálfsagður hlutur,“ segir Sabína og leggur aftur áherslu á að hreyfing verði að vera skemmileg svo fólk vilji stunda hana.

„Fólk verður einfaldlega að leyfa sér að finna barnið innra með sér og leyfa sér að hafa aftur gaman af því að hreyfa sig,“ segir Sabína að síðustu.

 

Dæmi um viðburði í Hreyfiviku UMFÍ

  • Leikskólabörn í Grindavík gengu á milli stofnana og fengu fullorðna til að gera æfingar með sér.
  • Bláskógabyggð bauð upp á ljósmyndagöngu þar sem faglærður ljósmyndari fór út með fólk og kenndi því að taka myndir í náttúrunni.
  • Frítt í sund á Ísafirði.
  • Blóðsykursmæling á Seyðisfirði.
  • Hjólaklúbbur Skipasaga er með hjólatúr og fræðslu um hjól og hjólreiðar. Farið var yfir helstu atriðin sem skipta máli í hjólreiðum, t.d. réttan útbúnað, loftþrýsting í dekkjum og fleira.
  • Fótboltagolf í umsjón meistaraflokks kvenna í knattspyrnu á Vopnafirði.