20. október 2021

Ingvar Sverrisson útnefndur matmaður sambandsþings UMFÍ 2021

„Ég fylgdist vel með því hvernig Ingvar bar sig í matar- og kaffitímum. Hann reyndist sannur félagi, sótti brauð fyrir aðra þegar vantaði á borðið, tók líka vel til matar síns og gekk snyrtilega frá öllum áhöldum. Gott ef hann smurði ekki fyrir nokkra þingfulltrúa líka,“ segir Guðríður Adnegaard, formaður  Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK).

Guðríður tilkynnti á lokakvöldi sambandsþings UMFÍ sem fram fór á Húsavík um síðustu helgi að Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), væri matmaður þingsins. Guðríður afhenti Ingvari farandbikar í verðlaun. Farandbikarinn er askur sem fer annað hvert ár til þeirra sem verðskulda nafnbótina matmaður sambandsþings UMFÍ.

Hefð hefur verið fyrir því síðan árið 1979 á þingum UMFÍ að velja matmann UMFÍ. Askurinn sem matmaður fær er afhentur í lok síðustu máltíðar þings UMFÍ þeim þingfulltrúa eða stjórnarmanni UMFÍ sem að mati dómnefndar er þess verðugastur að geyma gripinn til næsta þings. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða og fleiri þátta. Dómnefnd er skipuð forseta þingsins og fyrrverandi matmanni.

Ingvar tók við heiðurstitlinum af Guðmundi L. Gunnarssyni, framkvæmdastjóra ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi. Hann var matmaður sambandsþings UMFÍ árið 2019

 

Tók vel til matar síns

Guðríður fylgdist vel með borðvenjum Ingvars og segir hann vel að viðurkenningunni kominn.

„Ég fylgdist vel með honum og hafði sannast sagna áhyggjur af því í einum kaffitímanum að hann fengi ekki nóg kaffi og sætabrauð. En þá virtist hann bara vera að fullvissa sig um að allir væru búnir að fá sér einu sinni þegar hann lét til skarar skríða. Fyrir kvöldmatinn reyndist hann svo vera búinn að hita sig vel upp og halda sér við því hann var búinn að sporðrenna hitaeiningum sem áreiðanlega jafngilda 2-3 samlokum. En það sem skiptir máli er að hann var að allan tímann og var duglegur,“ segir Guðríður.

Guðríður segir ánægjulegt að Ingvar hafi hlotið titilinn því þetta var fyrsta þingið sem ÍBR átti fulltrúa á sambandsþingi UMFÍ. Íþróttabandalagið fékk nefnilega aðild að UMFÍ á sambandsþingi fyrir tveimur árum eftir að hafa sótt um hana í áraraðir.

„Þetta var skemmtilegt. Það fór kannski ekki mikið fyrir Ingvari á þinginu en hann var drjúgur og að allan tímann!“ segir Guðríður.

 

Hér má sjá þegar Ingvar skoðaði ofan í askinn og mynd af því þegar hann steig í pontu.