10. mars 2018

Innsigla samning um Landsmótið á Sauðárkróki

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði, Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), og Arnrún Halla Arnórsdóttir, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) skrifuðu síðdegis á fimmtudag undir samning um Landsmótið, sem haldið verður á Sauðárkróki í sumar. 

Undirritunin átti sér stað í leikhléi í leik karlaliða Tindastóls og Stjörnunnar í Dominos-deildinni í körfuknattleik í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.

Hægt er að sjá myndskeið frá undirrituninni á upptöku af leiknum á vef Tindastóls. Spóla þarf fram á 59. mínútu upptökunnar.

Markmið samningsins er að skilgreina sem best aðkomu allra aðila að mótahaldinu.

Myndirnar af undirrituninni tók Hjalti Árnason.

 

Landsmótið

Landsmótið verður haldið dagana 12.-15. júlí 2018 á Sauðárkróki. Mótssetning er á föstudag og mótsslit á sunnudegi. Á sama tíma fer fram Landsmót UMFÍ 50+. Með því að halda mótin saman verða margfalt fleiri viðburðir í boði fyrir keppendur 50 ára og eldri en á öðrum mótum.

Mótið er íþróttahátíð þar sem hreyfing og almenn lýðheilsa er sett í fyrsta sæti. Hægt verður að taka þátt í keppni og prófa meira en 30 íþróttagreinar af ýmsu tagi. Lögð er áhersla á nýja áherslu í hreyfingu sem felst í almennri þátttöku og byggist á hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl.

Gert er ráð fyrir mörg þúsund manns á Landsmótið í Skagafirði og má búa við að það hafi nokkra en jákvæða röskun í för með sér fyrir daglegt líf bæjarbúa á Sauðárkróki.

Búið er að opna vefsíðu mótsins þar sem hægt er að skoða allt það sem er í boði.

www.landsmotid.is

Skráning á Landsmótið hefst 1. apríl.