20. apríl 2021

Íþróttafélögin nýta sér starfskrafta í gegnum Hefjum störf

„Það er mikill fjöldi fólks án atvinnu með þekkingu og reynslu sem nýtist íþróttafélögum. Knattspyrnudeildin okkar hefur ráðið einn starfsmann og ég hef verið að mæla með því að við ráðum fleiri,‟ segir Hámundur Örn Helgason, nýráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN). Knattspyrnudeild UMFN réð á dögunum starfsmann í gegnum verkefnið „Hefjum störf.“

Hámundur segir ráðninguna hafa tekið stuttan tíma. Hugmyndin um hana var tekin á mánudegi og var viðkomandi kominn til starfa um miðja vikuna.

Hámundar áréttar mikilvægi þess að íþróttahreyfingin nýti öll þau úrræði sem stjórnvöld hafa ýtt úr vör og ætlað er að draga úr atvinnuleysi og skapa námsfólki störf í sumar.

Fjöldi íþrótta- og ungmennafélaga hefur ráðið starfsmenn undir merkjum átaksins Hefjum störf, bæði fólk af atvinnuleysisskrá og námsmenn 18 ára og eldri. Störfin sem um ræðir eru af ýmsum toga, allt frá því að þjálfa börn og ungmenni í sumar, stýra sumarnámskeiðum, sinna gróðursetningu, umsýslu gagna, skráningu sögulegra gagna íþrótta- og ungmennafélaga og margt annað sem setið hefur á hakanum sökum manneklu.

Samkvæmt skilmálum verkefnisins er krafa um að þau félagasamtök, íþróttahérað, íþróttafélag eða deild og fleiri sem ætla að nýta sér það hafi starfsmann á launum. Það er fjarri að öll íþróttafélög og héraðssambönd hafi starfsfólk á launum. Í þeim tilvikum geta héraðssambönd með fastan starfsmann séð um ráðninguna á tímabundnum starfsmanni í gegnum verkefnið Hefjum störf.

 

Hefjum störf: Fólk á atvinnuleysisskrá

Ríkisstjórnin kynnti verkefnið í gegnum Vinnumálastofnun í mars og hefur það að markmiði að koma atvinnulausum út á vinnumarkaði. Fyrirtæki og félagasamtök geta í gegnum átakið fengið styrki upp til að ráða fólk af atvinnuleysiskrá og námsmenn.

Hafi atvinnuleitandi verið á atvinnuleysisskrá í 12 mánuði eða lengur fylgir styrkur upp á alls 470.000 krónur í laun auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Sömuleiðis er hægt að ráða fólk sem hefur verið atvinnulaust í skemmri tíma en 12 mánuði. Styrkurinn lækkar í samræmi við það. Ráðningatíminn er sex mánuðir.

Hafi atvinnuleitandi verið skemur á skrá, eru launin 307.000 en síðan bætist við 11,5% í lífeyrissjóð. Atvinnurekandi þarf því hið minnsta að leggja til launatengd gjöld, hið minnsta 80.000 auk um 50.000 til að tryggja starfsmanni lágmarkslaun, en þau geta verið hærri kveði kjarasamningar á um það.

Samkvæmt verkefninu þarf launagreiðandi að leggja til orlof, tryggingagjald og iðgjald í stéttarfélag sem reikna má með að kosti 80.000 krónur á mánuði fyrir slíkan starfsmann.

Félagasamtök geta fengið sérstakan styrk sem nemur allt að 25% þeirrar fjárhæðar þess styrks sem greiddur er hverju sinni vegna kostnaðar samtakanna í tengslum við þau tímabundnu átaksverkefni sem um ræðir.

Hægt er að ráða starfsmann til allt að sex mánaða í gegnum átakið, að lágmarki einn. Skilyrði er að samtök séu með a.m.k. 1 einn starfsmann í 25% starfi á launaskrá fyrir.

Ítarlegar upplýsingar um málið

 

Námsmenn

Verkefni stjórnvalda um námsmenn á að ná til þess hóps sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar. Það er fyrir 18 ára og eldri og hægt að ráða námsmann til vinnu í tvo og hálfan mánuð.

Ekki er búið að opna fyrir námsmannagáttina.

Tillögur um leiðina verða kynntar fyrir 1. maí. 

Ítarlegar upplýsingar um störf námsmanna

 

Svona er þetta gert

  • Farið inn á vefsíðu Vinnumálastofnunar: https://vinnumalastofnun.is/
  • Til að skrá starf þarf að vera með Íslykil eða rafræn skilríki á kennitölu félagsins. EKKI gengur að nota persónulega kennitölu eða rafræn skilríki starfsmanna. Ef félagið er ekki með rafræn skilríki eða Íslykil þarf að sækja um slíkt fyrir félagið.

 

Viltu vita meira?

Mjög góðar leiðbeiningar og svör eru við fjölda spurninga á vefsíðu Vinnumálastofnunar.