19. október 2020

Íþróttastarf í gang á höfuðborgarsvæðinu með kvöðum

Íþróttastarf getur farið í gang á nýjan leik á höfuðborgarsvæðinu fyrir snertilausar íþróttir á morgun, þriðjudaginn 20. október, samkvæmt ýmsum kvöðum. Fundað var um málið hjá ÍSÍ í morgun með fulltrúum sérsambanda og yfirvöldum.

Á fundinum kom fram að íþróttastarf getur farið af stað fyrir snertilausar íþróttir á höfuðborgarsvæðinu. Það á við um sund og boltaíþróttir með þeim skilyrðum að iðkendur noti eigin bolta og undirgangist ýmsar kvaðir sem snúa að persónulegum smitvörnum. Þótt sundlaugar eru lokaðar almenningi þá má opna þær fyrir iðkendum og skólahópum svo lengi sem gætt er að fjöldatakmörkun fullorðinna.

Til viðbótar kemur fram í reglugerð heilbrigðisráðherra frá um helgina, að heimilt sé með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu ef um er að ræða skipulagðan hópatíma sem þátttakendur eru skráðir í. Þátttakendur í tímanum mega ekki skiptast á búnaði og allur búnaður sótthreinsaður að honum loknum.

Þetta er í mótsögn við það sem fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis sem birt var á föstudag.

 

Munur á reglugerð og minnisblaði

Fram kemur í frétt mbl.is af upplýsingafundi Almannavarna í morgun, að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi sagt ekki óeðlilegt að munur væri á tilmælum hans og reglum ráðuneytisins. Hann hafi lagt til að líkamsræktarstöðvar og sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu yrðu áfram lokaðar.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir ekki gott þegar reglugerð ráðuneytis sé ekki samhljóða minnisblaði sóttvarnalæknis. Það skapi rugling.

 

 

„Ég upplifi að forsvarsmenn félaga eiga erfitt með að skilja það sem fram kemur í minnisblaði Þórólfs og reglugerðinni. Það eru allir að reyna að finna út úr því hvar þeir standa og hvaða upplýsingar þeir eiga að veita forráðamönnum þar sem reglugerðin tekur gildi á morgun. Það er ekki gott þegar reglugerðin er opnari en tilmæli Þórólfs. Það skapar sundrung. En við höfum þvert á móti þörf fyrir samstöðu og samræmda starfsemi,“ segir hún.

 

Niðurstöður fundar með ÍSÍ í morgun voru eftirfarandi:

 

  • Íþróttaæfingar barna á höfuðborgarsvæðinu: Heimilt er að hefja æfingar á ný fyrir börn fædd árið 2005 og yngri. Engin fjöldatakmörkun er á æfingum barna. 
  • Ekki skal blanda skólahópum saman, þ.e. hópum barna úr mismunandi skólum sem eru alla jafna ekki saman.
  • Fullorðnir mega ekki fylgjast með æfingum barna.

 

  • Íþróttaæfingar fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu: Snertilausar íþróttir eru leyfðar. Þar á meðal eru boltaíþróttir ef iðkendur koma með eigin bolta á æfingu og grípa ekki bolta annarra. Snerting er óheimil. Gæta verður að tveggja metra fjarlægðarreglu og að einungis 20 fullorðnir einstaklingar séu saman í hólfi. Hvert hólf þarf að vera aðgreint með greinilegum hætti.
  • Gæta þarf vel að sóttvörnum á öllum æfingum. Spritt þarf að vera aðgengilegt á æfingum og við æfingasvæði.
  • Sótthreinsa þarf búnað eftir æfingu.
  • Þurfi iðkandi að hósta eða hnerra á æfingu skal gera það í olnboga.
  • Gæta þarf vel að loftræstingu og loftgæðum inni í íþróttahúsum.
  • Að sama skapi getur fólk hafið æfingar í líkamsræktarstöð og nota frjáls lóð og áföst hjól. En ekki skal nota stóran veggfastan búnað.

 

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest minnisblað sóttvarnalæknis sem m.a. fjalla um takmarkanir á samkomum og íþróttastarfi. Reglugerð þessa efnis tekur gildi á morgun, þriðjudaginn 20. október.