21. apríl 2020

Íþróttastarfið aftur í gang 4. maí

„Þetta er framar okkar vonum því þetta er mun víðtækari aflétting á höftum á íþróttastarfi en áður var upplýst. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu vel baráttan hefur gengið sem veldur því að hægt er að aflétta samkomubanninu. Nú hillir undir að dyr íþróttahúsanna opnast iðkendum á nýjan leik. Það gleður enn meira að stór hluti iðkenda getur nú farið að hlakka aftur til að fara á æfingu eftir að hafa verið heima í rúman einn og hálfan mánuð,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Heilbrigðisráðherra kynnti nú síðdegis í dag breytingu á samkomubanni. Í því felst að fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4. maí næstkomandi. Unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi en skólasundkennsla verður heimil.

Íþróttastarf fullorðinna lýtur áfram takmörkunum. Þar á meðal mega mest sjö einstaklingar vera með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll en fjórir með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll. Notkun á búningssaðstöðu innanhúss er óheimil og hvatt til að tveggja metra nándarreglan verði virt. 

Fjarlægðartakmarkanir eiga ekki við börn á leik- og grunnskólaaldri og því aðeins um ungmenni á framhaldsskólaaldri og fullorðna.

Nánar er fjallað um takmarkanir hér að neðan.

Mikil tilslökun

Þetta er meðal þess sem fram kemur í auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rýmkun á reglum um takmarkanir á skólahaldi og samkomum er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Áður hafði verið talað um að íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri yrði leyft utandyra. Með tilslökunum sem taka eiga gildi 4. maí stefnir í að íþróttastarf barna verði leyft bæði innan- og utandyra. 

Aflétting samkomubanns í íþróttastarfi hefur áhrif á um 70 þúsund börn á leik- og grunnskólaaldri og álíka fjölda iðkenda í skipulögðu íþróttastarfi 17 ára og eldri.

Almannavarnir og stjórnvöld hafa átt gott samráð við íþróttahreyfinguna með tilhögun afléttingarinnar og segir Auður Inga ánægjulegt að heilbrigðisyfirvöld hafi hlustað vel á ráðleggingar hreyfingarinnar.

Pössum að allir séu með

Auður Inga bendir þó á að stjórnendur íþróttafélaga og þjálfara þurfi að hafa ýmislegt í huga þegar íþróttastarf fer í gang á ný.

„Við verðum að muna eftir gleðinni og félagsskapnum sem fylgir íþróttum. En þessu fylgir ábyrgð. Við treystum félögunum 100% til að finna bestu mögulegu lausnirnar fyrir eldri aldurshópa. En það er auðvelt að gleyma sér í gleðinni. Þess vegna beinum við því til félaganna að huga að því að allir séu með og enginn iðkandi skilinn útundan í starfinu,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.


Aflétting samkomubanns og minnispunktar sóttvarnalæknis í stuttu máli:

Íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólastigi:

 • Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
 • Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
 • Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
 • Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
 • Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
 • Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.


Íþróttastarf fullorðinna:

 • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
 • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
 • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
 • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
 • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda.
 • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
 • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
 • Sundlaugar verði lokaðar almenningi.


Líkamsræktarstöðvar: 

 • Húsnæði líkamsræktarstöðva verði lokað en starfsemi utandyra leyfð. Mest verði sjö einstaklingar í hópum utandyra. Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði bönnuð.


Auglýsingin í heild sinni:

Fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4. maí næstkomandi, unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Þetta er meðal þess sem leiðir af nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rýmkun á reglum um takmarkanir á skólahaldi og samkomum er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Í auglýsingunni felst að reglur um fjöldatakmörk og um tveggja metra nálægðarmörk munu frá gildistöku hennar ekki eiga við um nemendur í starfsemi leik- og grunnskóla. Þannig verður því unnt að halda óskertri kennslu og vistun barna. Sama á við varðandi börnin í starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og annarri lögbundinni þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi en skólasundkennsla verður heimil.

Áform stjórnvalda um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi voru kynntar á fréttamannafundi forsætis- heilbrigðis- og dómsmálaráðherra 14. apríl síðastliðinn. Með auglýsingunni sem birt var í dag eru breytingarnar nákvæmlega útfærðar. Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis, dags. 19. apríl 2020, sem er viðbót við fyrri minnisblöð hans til heilbrigðisráðherra sem kynnt voru 14. apríl, er gott yfirlit yfir helstu breytingar sem auglýsingin hefur í för með sér varðandi skólastarf á öllum skólastigum, á íþróttastarf barna og fullorðinna o.fl.

Sóttvarnalæknir leggur til við heilbrigðisráðherra að þegar líður að lokum maí verði skoðaðir möguleikar á að aflétta enn frekar takmörkunum á samkomum. Að því gefnu að ekkert standi slíkum breytingum fyrir þrifum verði stefnt að því að færa fjöldatakmarkanir úr 50 í 100 manns, opna sundlaugar og líkamsræktarstöðvar o.fl.

Það skal ítrekað að meðfylgjandi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur ekki gildi fyrr en 4. maí næstkomandi. Frá sama tíma falla úr gildi núgildandi auglýsingar um takmörkun á samkomum og um takmörkun á skólastarfi.

Auglýsinguna og minnisblöð má lesa á vef heilbrigðisráðuneytis