08. febrúar 2018

Íþróttaveisla í undirbúningi á Sauðárkróki

„Landsmótið á Sauðárkróki er eitt af þeim verkefnum sem ég er hvað spenntastur fyrir,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi og framkvæmdastjóri Landsmóta UMFÍ. Hann hefur skipulagt mótin frá árinu 2004 og er um þessar mundir á fullu að undirbúa Landsmótið á Sauðárkróki í sumar.

Skrifstofa Ómars er á Sauðárkróki en hann þeysist mörg þúsund kílómetra landshorna á milli við skipulagningu móta UMFÍ.

„Eitt af því mikilvægasta í starfinu er að hitta fólk í eigin persónu,“ segir Ómar og rifjar upp eitt af ráðunum sem hann heyrði á fyrirlestri á landsmóti DGI í Álaborg í sumar. „Þar sagði einn fyrirlesarinn: Þið getið sent út tölvupósta og fréttabréf. En þið náið ekki árangri nema þið farið út og hittið fólk. Ég finn það hvar sem ég kem, að það er metið að ég sé á staðnum.“ Stærsta verkefni Ómars nú er hið nýja landsmót UMFÍ sem haldið verður á Sauðárkróki í júlí 2018. Mótið verður með breyttu sniði, nokkuð sem fólk hefur ekki áður kynnst á Íslandi. „Þetta er feikilega skemmtilegt og spennandi verkefni,“ segir Ómar.

 

Landsmótið

Landsmótið verður haldið á Sauðárkróki dagana 12.–15. júlí 2018. Fyrsta Landsmót UMFÍ var haldið árið 1909 en frá árinu 1940 hafa þau verið haldin á 3–4 ára fresti. Eftir síðasta Landsmót UMFÍ, sem haldið var á Selfossi sumarið 2013, var ákveðið að staldra við og endurskoða mótið, markmið þess og tilgang. Haldnir voru stefnumótandi fundir um land allt, auk þess sem stór hópur fór á danska landsmótið í sumar til að horfa á og fá hugmyndir.

Niðurstaðan varð að fara nýjar leiðir.

Landsmótið á Sauðárkróki verður opnað öllum, 18 ára og eldri, og gert aðgengilegra þeim sem hafa einfaldlega gaman af því að hreyfa sig reglulega. Keppendur þurfa ekki að vera í ungmenna- eða íþróttafélagi til að geta tekið þátt.

 

Eitthvað fyrir alla

Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á Landsmótinu. Það verður nefnilega boðið upp á rúmlega ólíkar íþróttagreinar.

Greinarnar eru: bandý, bíatlon, boccía, bogfimi, brennibolti, bridds, danssmiðja, fimleikar, fitness, fjallahjólreiðar, fótboltabiljard, fótboltapanna, fótbolti, frisbígolf, frjálsar, glíma, golf, götufótbolti, 65 km götuhjólreiðar, 10 km götuhlaup, gönguferðir, hjólaskíðaganga, hjólastólarall, hjólastólakörfubolti, júdó, karfa 3:3, karfa streetball, línudans, minigolf, mótocross, ólympískar lyftingar, pútt, pönnukökubakstur, ringó, salsa, sandhlaup, sjósund, skák, skotfimi, stígvélakast, strandblak, strandfótbolti, strandhandbolti, sund, þrautabraut og þríþraut. Einnig verða í boði fyrirlestrar, götupartý, hestasýning, ráðstefna, tónleikar og „Pallaball“ svo að eitthvað sé nefnt.

 

Sjá meira hér