04. september 2018

Jóhann Pálmason sæmdur gullmerki UMFÍ á aldarafmæli UDN

„Afmælið okkar hefur gengið mjög vel og það er búið að vera gaman,“ segir Heiðrún Sandra Grettisdóttir, formaður Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN). Sambandið var stofnað 24. maí árið 1918 og fagnaði því aldarafmæli í sumarbyrjun. Haldið var upp á stóra daginn með pompi og prakt nú á laugardag, 1. september í Dalabúð í Búðardal.

Heiðrún telur að um hundrað manns hafi mætt í veisluna.

Undirbúningur fyrir afmælisveisluna hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Leitað var til félagsmanna eftir gömlum búningum sambandsins og voru þeir sýndir í afmælisveislunni. Í afmælinu voru jafnframt sýndar myndum frá mótum, gamlir bikarar og fleira. Forsvarsfólk UDN hafði áður afhent Byggðasafni Dalamanna ljósmyndasafn sitt í tilefni af afmælinu og verður það aðgengilegt í sameiginlegum gagnagrunni íslenskra safna (www.sarpur.is).

Söfnun búninga gekk mjög vel.

„Við eigum slatta af gömlum búningum en fengum líka lánaða búninga frá UDN og aðildarfélögum í gegnum árin,“ segir Heiðrún og bætir við að fólk hafi haft gaman af því að sjá búninga.a

Í afmælisveislunni voru afhent fimm starfsmerki frá UMFÍ og var Jóhann Pálmason, stofnandi glímufélags Dalamanna og formaður félagsins, sæmdur gullmerki UMFÍ.

UDN hefur reyndar haldið upp á afmælið hina og þessa dagana. Haldið var metamót í tilefni af því á bæjarhátíðinni í Búðardal í sumar þar sem þátttakendum gafst tækifæri til að slá gömul met auk þess sem sprett var úr spori í UDN-hlaupinu á Reykhóladögum í sumar.

 

Á myndinni hér að ofan má mismunandi búninga UDN og aðildarfélaga. Heiðrún Sandra er lengst til hægri í búningi merktum Fóðurblöndu Ólafsdals. 

Á myndinni hér að neðan má sjá Jóhann ásamt ungum félögum í Glímufélagi Dalamanna.