04. júní 2021

Jóhanna formaður og starfsmerki á þingi USÚ

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir var endurkjörin sem formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) á 88. ársþingi sambandsins sem fram fór í Mánagarði í Nesjum á þriðjudag. Sama máli gegnir um stjórn USÚ, sem skipti með sér verkum að þinginu loknu.

Á þinginu fengu starfsmerki UMFÍ þær Þorbjörg Gunnarsdóttir, sem um árabil var gjaldkeri Hestamannafélagsins Hornfirðings og einnig USÚ um tíma, og Bryndís Björk Hólmarsdóttir sem var m.a. formaður Hestamannafélagsins. Til stóð að veita þeim merkin á síðasta ársþingi um leið og Pálma Guðmundssyni, en hvorug þeirra gat mætt þá. Nú gekk það hins vegar allt eftir.

Ágætlega var mætt á þingið eða 28 af þeim 49 fulltrúum aðildarfélaga USÚ sem áttu rétt á setu á þinginu.

Í upphafi þings var Ingvars Más Guðjónssonar minnst, en hann féll frá í desember 2020 langt fyrir aldur fram. Ingvar var afar virkur í starfi Ungmennafélagsins Mána síðustu mörg ár og varamaður í stjórn síðasta ár.

 

COVID setti strik í reikninginn

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður USÚ, setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna. Sagði hún óvenjulegar aðstæður hafa verið í þjóðfélaginu á undanförnum misserum. Ein birtingarmynd þess var að þingið var haldið 1. júní, en ekki 27. apríl eins og áður stóð til.

Fram kom á fundinum að starfsemi USÚ einkenndist að töluverðu leyti af COVID-faraldrinum, líkt og hjá öðrum félagasamtökum. Lítið var um fundarferðir, en þeim mun meira af fjarfundum. Nánar má lesa um starfið 2020 í skýrslu stjórnar í ársriti USÚ, þar sem jafnframt má kynna sér ársreikning 2020 og starfsskýrslur flestra aðildarfélaga auk starfandi deilda innan Umf. Sindra.

Fram kemur í umfjöllun um þingið á heimasíðu USÚ að einungis tvær tillögur lágu fyrir þinginu. Annars vegar hefðbundin tillaga um hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á 23. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina og á 10. Landsmót UMFÍ 50+, sem haldið verður í Borgarnesi í lok ágúst.

Einnig var samþykkt tillaga um að nefndin sem vinnur að nýrri lottóreglugerð fái endurnýjað umboð til að halda sinni vinnu áfram. Erfitt hefur reynst að halda reglulega nefndarfundi vegna samkomutakmarkana, en stefnt er að því að leggja nýja reglugerð fyrir, eigi síðar en á ársþingi 2022.

Sigurður Óskar Jónsson var fulltrúi UMFÍ og flutti ávarp á þinginu en hann jafnframt gjaldkeri USÚ og á sæti í stjórn UMFÍ.

 

Hægt er að lesa meira og sjá fleiri myndir af þinginu á heimasíðu USÚ