16. september 2020

Jón í KVAN: Mikil orka í ungu fólki

„Það kemur mér alltaf á óvart hversu mörg ungmenni eru að huga að því hvernig þau geti eflt sína jákvæðu leiðtogahæfileika til þess að gefa gott af sér. Þetta er mun algengara nú en þegar ég var á sama aldri og þau sem sækja ungmennaráðstefnu UMFÍ,‟ segir Jón Halldórsson, sérfræðingur og framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins KVAN. Margir þekkja ráðgjafa fyrirtækisins, sem styður fólk til að ná að virkja það sem í það býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum.

Jón verður með erindi um það hvað einkenni jákvæða og neikvæða leiðtoga á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir í Hörpu á morgun, fimmtudaginn 17. september. Hann er velþekktur fyrir kröftug erindi sín og mætti á ráðstefnuna þegar hún fór fram í Borgarnesi í fyrra. Tveir fyrirlestrar verða á ráðstefnunni. Hinn heldur Beggi Ólafs, fyrirlesari.

 

Forsetinn og borgarstjóri við setninguna

Ráðstefnan er samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur ráðstefnunnar er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og efla ungt fólk til að hafa áhrif í samfélaginu.

 

 

Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi. Aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar eru Erasmus+.

Yfirskrift ráðstefnunnar er: Lýðræðisleg áhrif. Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif? 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa boðað komu sína á setningu ráðstefnunnar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og fjöldi þingmanna ætlar að taka þátt í umræðuhópum með þátttakendum og pallborði síðar um daginn.

Pallborði ráðstefnunnar verður streymt á Facebook-síðu UMFÍ og á netmiðlinum www.visir.is.

 

Mikil jákvæðni í hópnum

Jón segir það ótrúlegan heiður að fá tækifæri til að hitta ungt fólk sem vill láta af sér gott leiða.

„Fyrirlesturinn sem ég hélt í fyrra var einn af þeim minnistæðari sem ég hef haldið. Það var svo mikil jákvæðni og orka í hópnum. Ég segi alltaf að unga fólkið sé oft miklu hæfara á mörgum sviðum en við þessi sem erum farin að eldast aðeins. Það er gefandi að fá að færa þessu flotta unga fólki smá veganesti inn í lífið og á sama tíma fá fullt af orku og kunnáttu frá þeim sem hjálpar mér að halda mér á tánum í mínu starfi og þannig frekar fá skilning á því hvernig mismunandi kynslóðir hugsa og starfa,‟ segir hann.

En hvað ætlar Jón að ræða um nú á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði?

„Ég ætla að ræða um hlutverk leiðtogans og það hvernig hver og einn getur tileinkað sér jákvæða leiðtogahæfni. Áður fyrr var talið að leiðtogafærni væri meðfædd en leiðtogafræðin hafa breytt því: Allir sem vilja geta tileinkað sér leiðtogafærni. Það er lærð hegðun sem þarf að æfa eins og allt annað,‟ heldur Jón áfram.

 

Dagskrá ráðstefnunnar

Kl. 09:30 – 10:00 fer fram setning ráðstefnunnar. Á hana mæta Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Ungmennafélagshreyfingarinnar og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

 

Kl. 11: 30 – 12:30 fara fram umræður með ráðafólki. Þátttakendum er skipt upp í hópa þannig að allir fara í gegnum þrjár 20 mínútna umræðulotur. Umræðustjórar og ritarar eru fulltrúar úr Ungmennaráði UMFÍ.

Þeir ráðamenn sem hafa boðað komu sína eru:

 • Andrés Ingi Jónsson, þingmaður.
 • Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
 • Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. 
 • Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
 • Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins. 
 • Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
 • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 
 • Logi Már Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar.

 

Kl. 14:45 – 15:45 fer fram pallborðumræða við ráðamenn.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrr um daginn verða þátttakendur búnir að undirbúa spurningar til ráðamanna tengdar yfirskrift ráðstefnunnar. Fulltrúi úr Ungmennaráði UMFÍ stýrir umræðunum.

Þeir ráðamenn sem hafa boðað komu sína eru:

 • Andrés Ingi Jónsson, þingmaður.
 • Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talsmaður barna á alþingi.
 • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
 • Sanna Magdalena, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands.
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
 • Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
 • Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

 

Pallborði ráðstefnunnar verður streymt á Facebook-síðu UMFÍ og á netmiðlinum www.visir.is