13. apríl 2021

Jónas hjá KR: Nú sjáum við ljósið!

„Það eru allir himinlifandi yfir því að börnin fái að hreyfa sig á ný,“ segir Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR í Reykjavík, spurður um álit á þeim tilslökunum sóttvarnaaðgerða sem heilbrigðisráðherra boðaði í dag.

Í tilslökunum felst að allt íþróttastarf kemst í gang á ný á fimmtudag, grunnskólabörn geta byrjað á ný að stunda skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf og fjöldatakmarkanir eru útvíkkaðar úr 10 í 20. Þá opna sundlaugar og skíðasvæði auk fleiri tilslakana.

 

 

Jónas segir allt klárt  í KR-heimilinu fyrir nýja reglugerð, búið sé að segja frá henni á vefsíðu KR og upplýsa iðkendur um að farið verði eftir æfingatöflum deilda.

„Við höfum fylgt reglum og vonað það besta. Nú sjáum við ljósið,“ segir hann.

 

KR er aðildarfélag ÍBR, sem er sambandsaðili UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins sem skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.