20. desember 2019

Júlían kraftlyftingamaður: Stuðningur fjölskyldunnar skiptir öllu máli

„Þótt maður lyfti stönginni einn og standi einn á palli þá getur maður ekki gert þetta allt einn. Ég bý svo vel að því að mamma hefur fylgst með öllu sem ég geri og hún hefur alltaf stutt mig í því sem ég tek mér fyrir hendur. Nú gerir Ellen, kærastan mín það líka,“ segir Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraflyftingamaður í Ármanni, sem í gær var heiðraður ásamt Margréti Láru Viðarsdóttur og eru þau Íþróttafólk Reykjavíkur.

Júlían setti heimsmet í réttstöðulyftu á árinu og varð í þriðja sæti á HM í samanlögðu.

Júlían segir móður sína hafa komið á mótin sem hann keppir á og nú Ellen á tvö mót.

„Það er alveg klárt að þótt kraftlyftingar séu einstaklingsíþrótt, eins og svo margar, þá nær maður aðeins árangri fyrir tilstilli margra. Stuðningur mömmu skiptir máli, Ellenar, afa og ömmu og allrar fjölskyldunnar,“ segir Júlían.

Það er Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) sem útnefnir íþróttafólk og íþróttalið ársins. ÍBR varð sambandsaðili UMFÍ í október á þessu ári.

Ásamt því að heiðra Margréti og Júlían voru kvennalið Vals og karlalið KR í körfubolta valin íþróttalið Reykjavíkur.

Tólf einstaklingar og fimmtán lið voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2019.


Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

 • Ármann – Íslands- og bikarmeistarar í sundknattleik
 • ÍR – Íslandsmeistarar í keilu
 • Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í júdó
 • Keilufélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í keilu
 • KR – Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
 • KR – Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
 • Skylmingafélag Reykjavíkur – Íslandsmeistarar í skylmingum
 • TBR - Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
 • Valur - Íslandsmeistarar í knattspyrnu kvenna
 • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik kvenna
 • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik kvenna
 • Víkingur – Bikarmeistarar karla í knattspyrnu
 • Víkingur - Íslands- og bikarmeistarar í borðtennis
 • Víkingur – Íslandsmeistarar í tennis
 • Þórshamar - Íslandsmeistarar karla í kata

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

 • Arnar Davíð Jónsson, Keilufélagi Reykjavíkur
 • Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttadeild Ármanns
 • Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
 • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
 • Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Golfklúbbi Reykjavíkur
 • Helena Sverrisdóttir, körfuknattleiksdeild Vals
 • Íris Björk Símonardóttir, handknattleiksdeild Vals
 • Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingadeild Ármanns
 • Kári Árnason, knattspyrnudeild Víkings
 • Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnudeild Vals
 • Óskar Örn Hauksson, knattspyrnudeild KR
 • Snorri Einarsson, Skíðagöngufélaginu Ulli