11. júní 2018

Keppt í sumarbiathloni í fyrsta sinn á Íslandi

„Það hefur aldrei verið keppt áður í þessari grein á Íslandi. En hún er frábær og mikilvægt að kynna hana fyrir fólki sem hefur gaman af íþróttum,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem stendur fyrir kynningu á greininni alla miðvikudaga fram að Landsmótinu. Landsmótið er nýtt mót á vegum UMFÍ og verður það haldið á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí.

Biathlon er þekkt grein úti í hinum stóra heimi sem skíðaskotfimi og vekur ætíð lukku á vetrarólympíuleikum þar sem keppt er á gönguskíðum. Mjög líklegt er að sól skíni í heiði og grasið grænt á Sauðárkróki í sumar. Af þeim sökum er keppni í biathlon, sem þýða má sem hlaupaskotfimi, á Landsmótinu allt öðruvísi. Þar hlaupa keppendur ákveðna vegalengd, skjóta síðan af sérstökum riffli í mark á völdum stöðum og spretta úr spori á ný. Ef keppendur missa marks þurfa þeir að hlaupa sérstakan refsihring.

Kynning og æfingar á biathlon fara fram aftan við stúkuna á æfingasvæði frjálsíþróttafólks hjá Breiðabliki í Kópavogi alla miðvikudaga fram að Landsmótinu á Sauðárkróki, þ.e. miðvikudagana 13. júní, 20. júní, 27. júní og 4. júlí á milli klukkan 17:00 – 18:00. Eins verða í boði æfingamót sem verða auglýst síðar.

„Þarna getur fólk komið og æft sig fyrir Landsmótið,“ segir Valdimar og er spenntur fyrir mótinu.

 

Landsmótið er íþróttaveisla

Landsmótið er sannkölluð íþróttaveisla fyrir 18 ára og eldri og fer fram á Sauðárkróki í júlí. Þar verða í boði rúmlega 30 íþróttagreinar þar sem þátttakendur geta valið á milli þess að keppa, fá kynningu á greinum eða leika sér í ýmis konar greinum sem þeir hafa aðeins látið sig dreyma um að prófa.

Skráning er í fullum gangi á www.landsmotid.is. Þátttökugjald er aðeins 4.900 krónur og hækkar eftir 15. júní næstkomandi.

Hér má sjá fleiri myndir af fólki prófa skotfimina á dögunum.