03. desember 2019

Kvittað upp á Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi 2020

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Árborg um verslunarmannahelgina 2020. Samningur þessa efnis var undirritaður í hálfleik æsispennandi leiks karlaliða í handbolta á milli Selfoss og FH í Olísdeild. Leikurinn fór fram í pakkfullu íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld. Leikurinn fór 37-31 gestunum í vil.

Undir samninginn skrifuðu þau Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, og Guðríður Aadnegard, formaður HSK.

Haukur segir Unglingalandsmót UMFÍ eina af birtingarmyndum íslenska forvarnarmódelsins.

„Á mótinu leggjum við mikla áherslu á skipulagt íþróttastarf, þar sem allir geta verið með á eigin forsendum og samveru fjölskyldunnar um verslunarmannahelgina. Á mótinu skemmta sér allir vel á heilbrigðum forsendum og geta þátttakendur prófað fjölda íþróttagreina ásamt því að fylgjast með og hlusta á allt það nýjasta sem í boði er á tónlistarsviðinu á kvöldvökunum. Nú er Unglingalandsmót UMFÍ orðin ein af helstu hátíðunum um verslunarmannahelgina þar sem allir skemmta sér saman á heilbrigðan hátt. Það er besta forvörnin,‟ segir hann.

 

UM UNGLINGALANDSMÓT UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið frá árinu 1992 og verður þetta í annað sinn um verslunarmannahelgina sem það verður haldið á Selfossi.

Margir þekkja orðið Unglingalandsmót UMFÍ sem einn af áfangastöðum fjölskyldufólks um verslunarmannahelgina og staðinn til að vera á enda lögð áhersla á samveru fjölskyldunnar. Þótt mótið sé hugsað fyrir ungmenni 11-18 ára sem reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum þá er það vímulaus fjölskylduhátíð þar sem boðið er upp á fjölda viðburða við allra hæfi.

Unglingalandsmót UMFÍ er jafnframt góður staður fyrir vini til að koma saman á og taka þátt í mörgum íþróttagreinum. Unglingum hefur fjölga á mótinu sem taka þátt í greinum á borð við strandblak og strandhandbolta, körfubolta og fleiri greinum og búa til sína eigin búninga.

Hvorki er skilyrði að vera félagi í UMFÍ eða stunda íþróttir til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ og geta allir á aldrinum 11-18 ára verið með.

 

Miklu meira um Unglingalandsmót UMFÍ

Fleiri myndir frá viðburðinum á Selfossi í gær.