11. júlí 2018

Landsmótstjaldið komið upp á Sauðárkróki

„Við erum að ganga frá því síðasta. Margir eru búnir að koma á skrifstofuna til okkar að skrá sig og eru að undirbúa morgundaginn,“ segir Pálína Ósk Hraundal, einn af tveimur verkefnastjórum Landsmótsins sem verður á Sauðárkróki um helgina.

Mótið stendur yfir dagana 12. – 15. júlí á Króknum og er búið að panta brakandi blíðu.

Á dagskránni á morgun er þriggja tinda ganga á Mælifell, Tindastól og Molduxa í Skagafirði. Ganga hefst klukkan 9:00 og er gert ráð fyrir að henni ljúki klukkan 21:00. Gangan er opin öllum.

„Við erum búin að stika leiðina á Tindastól. En fólk þarf ekki endilega að ganga á alla tindana þrjá. Það er alveg hægt að ganga á einn ef viðkomandi vill það frekar,“ segir Pálína. Gangan er merkt sem rauður viðburður í mótadagskrá Landsmótsins. Það þýðir að þátttökuarmband þarf til að fara í gönguna og vera skráður í hana.   

Allt öðruvísi Landsmót

Litakóðarnir á Landsmótsins eru þrír. Viðburðir sem merktir eru rauðu eru kynningar og kennsla. Þátttökuarmband þarf til að taka þátt í þeim. Gulu viðburðirnir eru keppnisgreinarnar sjálfar á Landsmótinu og þarf að sjálfsögðu armband til að taka þátt. Viðburðir sem merktir eru með grænu eru svo opnir fyrir alla.

Landsmótið á Sauðárkróki er með splunkunýju og breyttu sniði. Það er opið öllum 18 ára og eldri sem hafa gaman af því að taka þátt í fjölbreyttum íþróttum.

Auk íþrótta á daginn er boðið upp á fyrirlestra og skemmtanir alla helgina. Föstudagurinn byrjar til dæmis með morgunjóga en svo hefst keppni í golfi og boccía, götuhlaupi og metabolic og fleiri greinum. Landsmótið er sett síðdegis á föstudag og verður strax eftir það blásið til götupartýs og grillveislu sem Auðunn Blöndal og Steindi jr. stýra. Hljómsveitin Albatross með Sverri Bergman í fararbroddi. Þessum viðburðaríka öðrum degi mótsins lýkur svo með miðnæturjóga og upphitun fyrir hina daga mótsins.

 

Dagskrá Landsmótsins má sjá í heild sinni hér