14. febrúar 2018

Líf og fjör á íþrótta- og leikjadegi FÁÍA

„Þetta gekk allt saman mjög vel hjá okkur,“ segir Þórey S. Guðmundsdóttir, formaður Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA). Félagið var með Íþrótta- og leikjadag aldraðra í íþróttahúsi Seljaskóla í dag.

FÁÍA hefur haldið Íþrótta- og leikjadaginn á hverju ári frá árinu 1987 og var hann fyrstu árin úti á gervigrasvellinum í Laugardal. Hann var í maí og júní til ársins 1996 en færðist eftir það til Öskudagsins og hefur verið innandyra í meira en áratug.

Þórey var hæstánægð með mætinguna á viðburðinn í dag. Í íþróttahúsið mættu níu hópar af höfuðborgarsvæðinu en þeir hafa verið allt upp undir tólf á árum áður. Hóparnir sýndu listir sínar í línudansi, stóladansi, hreyfingu í sætum, Thai Chi, leikfimi með hringi, leikfimi og zumba. Þá tók Gaflarakórinn nokkur lög.

Á myndinni hér að ofan má sjá þau Anton Bjarnason, Eygló Alexandersdóttur, Þóreyju S. Guðmundsdóttur og Hjört Þórarinsson. Gaflakórinn, sem einmitt sést á bak við þau, tók tvö lög með texta eftir Hjört á íþrótta- og leikjadeginum.