12. janúar 2021

Líf og fjör á ný í Ungmennabúðum UMFÍ

Tilslökun á samkomutakmörkunum skilar því að nemendur grunnskóla flykkjast nú aftur í Ungmennabúðir UMFÍ. 

„Ég hlakka mikið til að taka á móti þessum fyrsta nemendahópi á nýja árinu,“ segir Jörgen Nilsson, forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni. COVID-faraldurinn og samkomutakmarkanir hafa valdið því að engir nemendur níunda bekkjar í grunnskólum landsins hafa komið í ungmennabúðirnar síðan í byrjun október á síðasta ári eða í um fjóra mánuði. 

UMFÍ hefur starfrækt ungmennabúðir í rúm 16 ár og hefur vegur þeirra vaxið frá fyrsta degi. Markmiðið með dvölinni er að styrkja félagsfærni ungmenna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.

Uppbókað var í búðirnar þegar COVID-faraldurinn skall á fyrir ári. Í október í fyrra þegar samkomutakmarkanir voru hertar verulega gátu nemendur í skólum landsins ekki lengur mætt í Ungmennabúðir UMFÍ. Nú er hins vegar farið að snúa til betri vegar því strax á mánudeg er von á nemendum í níunda  bekk í Akurskóla í Reykjanesbæ.

„Þetta eru góðir nemendur og fínn fjöldi, sem kemur nú,“ segir Jörgen. Nemendurnir eru tæplega 30 talsins og býður UMFÍ þá velkomna.

 

Lesa meira um Ungmennabúðir UMFÍ: www.ungmennabudir.is