24. júní 2020

Lumarðu á sögu af Unglingalandsmóti?

Vinna er í fullum gangi á öllum póstum við undirbúning Unglingalandsmóts UMFÍ sem verður á Selfossi um verslunarmannahelgina. Þetta verður rosalegt mót!

Mótsblað er m.a. á teikniborðinu. Í því verða upplýsingar um greinar, tjaldsvæðið, sóttvarnir, gleðina sem felst í því að taka þátt í mótinu, öll liðin með skemmtilegu nöfnin, búningana sem þátttakendur búa til, óvenjulegar uppákomur, tónlistarfólkið sem kemur fram á kvöldvökunum og margt, margt fleira gagnlegt og gott.

Lumið þið á skemmtilegri sögu af Unglingalandsmóti UMFÍ eða vitið þið af einstaklingum eða liðum sem eru að undirbúa eitthvað skemmtilegt fyrir Unglingalandsmótið á Selfossi?

Þetta geta verið allskonar sögur. Muna ekki allir eftir dósabeljunni á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi? Þegar þátttakendur böðuðu sig í Eyvindará á Egilsstöðum, Búningunum í strandblakinu á Höfn í Hornafirði í fyrra? Sástu þegar Herra Hnetusmjör kom með þyrlu til Þorlákshafnar?

 

Sögurnar eru miklu fleiri.

Hér í viðhengi eru nokkrar myndir af liðum á Unglingalandsmóti UMFÍ fyrra. Þar má sjá lið með skemmtilegum nöfnum, flotta búninga og allskonar góðar fréttir.

Það verður gaman að fylla internetið af skemmtilegum sögum í aðdraganda Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi.

Ef þú lumar á sögu eða veist af liði sem er að undirbúa eitthvað frábært þá er einfaldast að skella í svar við þessum pósti og segja frá. Þetta þarf ekki að vera langt. Nú eða bara senda helstu upplýsingar um þann sem veit meira. Nú eða hringja í númerið sem hér fylgir með.

Öllum verður svarað.

Eins og sagði í auglýsingunni í gamla daga: Við erum við símann núna!

Hægt er að hringja í síma 568-2929 eða senda póst á jon@umfi.is

 

Dæmi um sögur af ULM í fyrra:

Ásmundur Einar liðsstjóri í körfubolta á Unglingalandsmóti UMFÍ

Hafa mætt á Unglingalandsmót UMFÍ 12 ár í röð

Kom astmaveikum vin til bjargar

GDRN fannst gaman að sprikla allan daginn á Unglingalandsmóti

Margrét segir Unglingalandsmót UMFÍ frábært fyrir alla fjölskylduna

  

Ýmislegt um Unglingalandsmótið

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 dagana 31. júlí – 2. ágúst. Mótið er haldið í samstarfi við HSK og Sveitarfélagið Árborg. Mótið hefur sannað gildi sitt sem glæsileg vímuefnalaus fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem saman kemur fjöldi barna og ungmenna með fjölskyldum sínum.

Mótið er fyrir 11-18 ára börn og ungmenni sem reyna fyrir sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Á Unglingalandsmóti UMFÍ verður að þessu sinni boðið upp á 22 frábærar greinar og viðburði frá morgni til kvölds. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun fyrir alla fjölskylduna, leikjatorg og fleiri viðburði.

Á meðal greina eru hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, götuhjólreiðar, kökuskreytingar og knattspyrna auk rafíþrótta. Á hverju kvöldi verða svo tónleikar með landsþekktu tónlistarfólki.

 

Skráning hefst á www.ulm.is 1. júlí.

 

Fleiri myndir frá fyrri Unglingalandsmótum