16. júní 2022

Magnea Dröfn nýr framkvæmdastjóri Héraðssambands Strandamanna

„Þetta var hefðbundið þing og gekk ágætlega þótt það hafi byrjað seinna en áformað var. En það var ógurlega léleg mæting og líklega hefðum við átt að auglýsa betur hvaða veitingar voru í boði,“ segir Jóhann Björn Arngrímsson, formaður Héraðssambands Strandamanna (HSS), um þing sambandsins sem haldið vará Hólmavík í gær.

Af öllum aðildarfélögum HSS mættu á milli 13-14 þingfulltrúar, sem er um helmingi færra en á hefðbundnu þingi. Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, mætti fyrir hönd íþróttahreyfingar og skilaði jafnframt kveðju til Strandamanna frá UMFÍ.

Stærstu fréttirnar af þinginu voru þær að þar var tilkynnt að íþróttakennarinn Magnea Dröfn Hlynsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri HSS. Hún tekur við af Hörpu Óskarsdóttur sem hætti fyrir ári. Magnea þekkir vel til starfs HSS enda hefur hún setið í nefndum sambandsins og var móðir hennar framkvæmdastjóri um tíma.  

Á þinginu var stjórn HSS endurkjörin að undanskilinni breytingu í varastjórn. Engin stórmál voru fyrirliggjandi, að sögn Jóhanns.

Á þinginu voru veittar viðurkenningar. Guðmundur Viktor Guðmundsson var útnefndur íþróttamaður HSS 2021 og Árný Helga Birkisdóttir var efnilegasti íþróttamaðurinn. Bróðir hennar var einmitt efnilegasti íþróttamaður ársins á undan.