07. nóvember 2018

Meiriháttar fræðslufundur UMSS í Miðgarði

Fræðslufundur Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) var haldinn í fyrsta sinn í Miðgarði í Varmahlíð í gærkvöldi. Fundargestir voru svo ánægðir að líklegt er að hann verði framvegis haldinn á hverju ári í formi Fræðsludags UMSS.

Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS, segir mætingu á fundinn hafa verið mjög góða, um 70 manns hafi mætt og talað um að hann hafi lagst vel í fólk, fundarefnið fróðlegt og skemmtilegt að hrista fólk saman með þessum gagnlega hætti.

UMSS hélt fundinn fyrir stjórnarmenn og þjálfara aðildarfélaga.

 

Krökkum á alltaf að líða vel

Á fundinum var Pálmar Ragnarsson, þjálfari yngri flokka í körfubolta hjá Val, með erindi um jákvæð samskipti og hreyfði hann við fólki.

Í umfjöllun héraðsfréttablaðsins Feykis segir að Pálmar hafi átt óskipta athygli fundargesta en hafi hann fjallað um athyglisverða vinkla á þjálfun barna og hvernig hægt er að láta öllum líða vel á æfingum með tilliti til mismunandi getu og þarfi iðkenda. Pálmar sagði mikilvægt að finna leiki fyrir alla og láta krakkana alltaf líða eins og þeir geri gagn.

Ómar Bragi Stefánsson, verkefnastjóri UMFÍ og framkvæmdastjóri móta UMFÍ, fjallaði um starfsemi UMFÍ. Þar á meðal var Landsmótið sem haldið var á Sauðárkróki í sumar, Unglingalandsmót UMFÍ sem var í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina og á Höfn í Hornafirði á næsta ári.

Ómar lýsti því hvernig Landsmótið á Sauðárkróki var í fyrsta sinn með breyttu sniði. Haft er eftir honum í Feyki að haldið verði áfram með svipuðu sniði.

Þorvaldur kynnti siðareglur og undirbúning þeirra. Markmið siðareglanna er að stuðla að bættri framkomu og styðja við heiðarlega framgöngu auk þess að efla traust og fagmennsku út á við og inn á við.

Thelma var sjálf líka með erindi um nýja reglugerð um val á íþróttamanni ársins, liði ársins, þjálfara Skagafjarðar og Hvatningarverðlaun UMSS.

 

Fleiri myndir frá fundinum sem Ómar Bragi tók fyrir UMFÍ