24. september 2018

Mót UMFÍ hafa góð áhrif á bæjarfélög

 

Samfélagsleg áhrif Unglingalandsmóts UMFÍ eru jákvæð í þeim bæjum þar sem mótin eru haldin. Þau eru hvatning til  uppbyggingar íþróttamannvirkja og styrkingar á innviðum staðarins svo að viðkomandi bæjarfélag getið haldið  Unglingalandsmót UMFÍ eða Landsmót. Efld uppbygging íþróttamannvirkja getur leitt til meiri fjölbreytni í íþróttaiðkunum, fjölgað iðkendum og styrkt ferðaþjónustuna á staðnum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í lokaritgerð Sindra Snæs Þorsteinssonar í ferðamálafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Í ritgerðinni skoðar Sindri samfélagsleg áhrif íþróttaviðburða víða um heim. Þar kemur m.a. fram að oft er ráðist í mikla uppbyggingu í kringum viðburðina. Þetta er bæði uppbygging á íþróttamannvirkjum og styrking á innviðum sem fyrir eru í bæjarfélögum sem halda mótin. Kastljósinu er beint að samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum íþróttaviðburða á borð við Unglingalandsmót UMFÍ á lítil bæjarfélög á landsbyggðinni.

Sindri segir í ritgerðinni að Landsmótin og Unglingalandsmótin eigi það sameiginlegt að fara fram víðs vegar um landið. Þau eru aldrei haldin á sama stað tvö ár í röð. Mótahaldið krefjist töluverðrar uppbyggingar innviða, bæði til að taka á móti  gestum og til að aðstaða til iðkunar sé sem best fyrir keppendur. Í niðurstöðunum má sjá að mikil tækifæri fyrir bæjarfélög liggja í því að halda Unglingalandsmót. Á Hornafirði setti þetta íþróttamannvirki á dagskrá og hefur orðið mikil uppbygging á þeim þar sem þáttur Unglingalandsmóts er mikill. Þá kom fram að mótið auki samstöðu meðal íbúa og að þeir finni fyrir ákveðnu stolti við að halda slíkan viðburð. Þá nýttu Hornfirðingar mótið, sem var haldið árið 2007, til þess að bæta ímynd staðarins og kynna menningu og sérstöðu hans. Þetta styrkti ferðaþjónustuna á svæðinu.

 

Mikil uppbygging á Höfn

Sumarið 2013 var 16. Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Höfn í Hornafirði. Þetta var í annað skiptið sem mótið var haldið þar. Fyrst var það haldið í bænum árið 2007. Á því móti voru í kringum 1.000 keppendur og 7-8.000 gestir. Ráðist var í mikla  uppbyggingu á íþróttamannvirkjum á Höfn sem hefur verið haldið áfram eftir mótið. Fyrir mótið var ráðist í gagngerar endurbætur á Sindravöllum sem er knattspyrnuvöllur bæjarins og grasið á honum endurnýjað ásamt því að tartan-hlaupabraut var sett upp umhverfis völlinn. Til viðbótar var ráðist í byggingu nýrrar sundlaugar sem hafði verið lengi á

teikniborðinu. Framkvæmdin tafðist reyndar og var laugin ekki vígð fyrr en árið 2009. Árið 2012 var íþróttahúsið Báran vígt.

Þetta er 4.000 fermetra fjölnota knattspyrnuhús.

 

Sátt við heimamenn

Sindri telur að sama sé í hvaða uppbyggingu verði ráðist í tengslum við mótshald, mikilvægt sé að hagsmunir almennings  séu lagðir til grundvallar. Mikilvægt sé að skoða hvernig mannvirki muni nýtast bæjarbúum þegar viðburðinum er lokið. Sé það gert á réttum forsendum geti það bætt lífsskilyrði íbúa og skapað meiri sátt meðal almennings um þá fjármuni sem settir eru í uppbyggingu kringum viðburðinn.

Ef vel er staðið að viðburðum eru allar líkur á því að þeir muni hafa jákvæð áhrif bæði á efnahag og samfélagið í heild sinni á þeim stað þar sem íþróttaviðburðurinn er haldinn. Hins vegar fari eitthvað úrskeiðis í undirbúningi eða í framkvæmd viðburðarins, geta áhrifin verið neikvæð.

 

Góður árangur á Höfn í Hornafirði

Unglingalandsmót hafa leitt til mikillar uppbyggingar íþróttamannvirkja í mörgum byggðarlögum þar sem þau hafa verið haldin. Íbúar á Höfn í Hornafirði nutu góðs af því við uppbyggingu mannvirkja fyrir mótið 2007. Tæpara mátti vart standa því með gengishruni íslensku krónunnar hækkaði allur kostnaður umtalsvert. Sem dæmi má nefna að kostnaður við tartanvöll hefði orðið margfalt hærri ef farið hefði verið í endurbætur á honum eftir gengisfallið.

Af öðrum framkvæmdum má nefna uppbyggingu á strandblakvelli við Sindravöll og betrumbætur á mótokrossbraut og áhorfendapöllum við Sindravelli. 

Öll þessi verkefni voru þó smávægileg miðað við aðrar framkvæmdir.

Almenn ánægja var meðal viðmælenda  Sindra með uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Höfn á Hornafirði, jafnvel þótt ljóst væri að þeir peningar sem lagðir voru í framkvæmdirnar skiluðu sér seint til baka. Sundlaugin á Höfn er gott dæmi um það. Þeir sem Sindri ræddi við voru sammála um að framkvæmdirnar borguðu sig hins vegar í bættum lífsgæðum og löðuðu ferðamenn í bæinn þar sem tjaldsvæðið í bænum var lagað. Eftir mótið hafa fleiri íþróttaviðburðir og minni heimamót verið haldin á Höfn í Hornafirði og nýtast mannvirkin til þess. Það sama á við um fleiri staði, svo sem á Sauðárkróki þar sem Landsmótið er haldið nú og í Vík í Mýrdal þar sem Unglingalandsmót UMFÍ var haldið árið 2005. Landsmót UMFÍ 50+ var haldið í Vík árið 2013 og nýttust - þá íþróttamannvirkin sem höfðu verið byggð upp í tengslum við Unglingalandsmótið.

Sindri segir flesta sem hann ræddi við sammála um að fjölbreytni í íþróttalífinu á Höfn hafi aukist eftir mótið þar enda búið að byggja mikið upp. Eftir að nýtt knattspyrnuhús var vígt losnaði um pláss í íþróttahúsinu.  Við það opnuðust dyr fyrir nýjar íþróttagreinar, iðkendum hefur fjölgað og þeir eru orðnir yngri.

 

Margþætt áhrif

Efnahagsleg áhrif af Unglingalandsmótinu á Höfn eru margþætt, að mati Sindra. Á Unglingalandsmót koma rúmlega 1.000 þátttakendur og gestir mótsins eru á milli 8.000 og 10.000 manns. Í þeim áætlunum sem Sindri vann eftir var gert ráð fyrir því að hver gestur eyddi sem næmi 20.000–25.000 krónum í eldsneyti, mat og keppnisgjöld. Ef miðað er við 8.000 gesti yfir  mótshelgina nemur heildarveltan um 160 milljónum króna að lágmarki sem verða eftir í samfélaginu. Til viðbótar fær  viðkomandi sambandsaðili UMFÍ allan hagnað af mótinu sjálfu og tengdum viðburðum.

Efnahagslegu áhrifin geta því verið umtalsverð.

 

Greinin birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur lesið allt blaðið á netinu. 

LESA SKINFAXA