18. febrúar 2021

Nemendur í Fellaskóla fengu loks verðlaun Hreyfiviku UMFÍ og Kristals

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti nemendum í 5. bekk í Fellaskóla verðlaun í Hreyfiviku UMFÍ og Kristals sem skólinn hlaut í fyrra. Auður sagði gaman hvað nemendurnir hafi staðið sig vel í vikunni, áhersla hafi verið á brennibolta en aðrir stundað fjölbreytta hreyfingu. Það sé í anda UMFÍ.

Þá sagði hún líka gott að geta líka loks afhent ávísanirnar. Hún hafi beðið eftir því frá í byrjun sumars í fyrra en samkomutakmarkanir vegna COVID-faraldursins hafi ávallt komið í veg fyrir það þar til nú.

Þetta var síðasta ávísunin sem UMFÍ afhendir nemendum grunnskóla í tengslum við Hreyfiviku UMFÍ á síðasta ári. Hinir skólarnir sem fengu verðlaun voru Grunnskólinn á Þórshöfn og Grundaskóli á Akranesi. Talsverðan tíma hefur tekið að afhenda verðlaunin. Nemendur á Þórshöfn fengu verðlaunin afhent í nóvember í fyrra og nemendur á Akranesi í febrúar á þessu ári.