08. febrúar 2021

Nemendur við Grundaskóla fengu loksins verðlaunin frá í fyrra

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti í morgun nemendum við Grundaskóla á Akranesi ávísun upp á 50.000 krónur sem skólinn hlaut í brenniboltaáskorun Hreyfiviku UMFÍ og Kristals í byrjun sumars í fyrra.

COVID-faraldurinn, samkomutakmarkanir, fjöldatakmarkanir og takmarkanir á skólastarfi urðu til þess að ekki var hægt að afhenda ávísunina fyrr en nú.

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri Grundaskóla og fyrrverandi formaður ÍA, skellti sér í hópmyndatöku með nemendunum og Auði Ingu við afhendinguna.

Verðlaununum í Hreyfiviku UMFÍ fylgir sú krafa að hana á að gefa félagi að eigin vali. Sigurður Arnar segir stefnt að því að gefa ÍA ávísunina og styðja þannig íþróttafélagið til að finna leiðir til að bjóða upp á íþróttir án aðgreiningar svo allir geti verið með í íþróttum.

ÍA er eitt 28 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.