10. júlí 2020

Ólafur endurkjörinn formaður UMFN

„Fundurinn var mjög fínn og mætingin þokkaleg miðað við hvað hann var haldinn seint inn í sumrinu og flestir komnir í frí,“ segir Ólafur Eyjólfsson, formaður Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN). Aðalfundur UMFN var haldinn 25. júní síðastliðinn. Lög félagsins kveða á um að hann eigi að halda í mars. Heimsfaraldur hamlaði hins vegar fundarhöldum eins og hjá öllum.

Hann segir aðstöðuleysi iðkenda sem fyrr brenna á stjórninni. Ljónagryfjan hafi verið byggð árið 1975 og sé nú svo komið að hvergi á landinu æfi körfuboltalið við jafn þröngan kost og í Njarðvík. Húsið hafi verið á undanþágu í mörg ár. Lítið hafi verið að gert í aðstöðumálum. En utanaðkomandi ástæður liggi að stórum hluta að baki því sveitarfélög á Reykjanesi hafi um skeið glímt við fjárhagsvanda.

Nú hillir hins vegar undir að aðstaðan bati því þrýst hafi verið á sveitarfélagið að vinna að betrumbótum þess innan ákveðins tímaramma.

„Við vonumst til þess að á næstu þremur til fjórum árum verði komið nýtt íþróttahús og félagsaðstaða í Njarðvík. Við gerum ráð fyrir að hanna húsið á næsta ári og eftir það fari allt í gang og þokkalega bjartsýn á að það gangi eftir,“ segir Ólafur.

 

Lottó og getraunir mikilvægar

Ólafur hefur setið í formannsstóli UMFN síðan árið 2013 og var hann endurkjörinn á fundinum nú eins og stjórnin öll. Eina breytingin er sú að Þórdís Björg Ingólfsdóttir var kjörinn varamaður í stað Brynju Vigdísar Þorsteinsdóttur sem hefur verið starfandi í stjórnum UMFN frá 2013.

Þeir Guðmundur Sigurbergsson og Lárus B. Lárusson voru fulltrúar stjórnar UMFÍ á fundi UMFN. Guðmundur hélt þar stutta tölu og benti m.a. á að 44% af tekjum UMFN komi frá Íslenskri getspá og nefndi mikilvægi þess félags umfram erlend félög sem skila engu til landsins en eru stórtæk hérlendis.

Heiðursviðurkenningar veittar

Félagar sem hafa unnið gott og óeigingjarnt starf í þágu félagsins voru heiðraðir á fundinum. Gullmerki fengu þeir Friðrik Stefánsson (fyrir körfuknattleiksdeildina) og Logi Halldórsson (fyrir körfuknattleiksdeildina). Silfurmerki fengu Árni Þór Ármannsson (fyrir knattspyrnudeildina), Guðni Erlendsson (fyrir knattspyrnudeildina), Hörður Birkisson (fyrir lyftingadeildina), Ágústa Guðmarsdóttir (fyrir körfuknattleiksdeildina og aðalstjórn) og Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir (fyrir sunddeildina og aðalstjórn). Þá var Önnu Andrésdóttur (fyrir aðalstjórn) veitt bronsmerki.

Að lokum afhenti Ólafur Thordersen Þórunni Maríu Þorbergsdóttur Ólafsbikarinn fyrir langt og gott starf hjá körfuknattleiksdeildinni. Hann talaði um að hún sé alltaf til staðar ef þörf er á og sagði Ólafur frá því að þegar hann tók þátt í Reykjavíkurhlaupinu á síðasta ári þá var Þórunn að sjálfsögðu þar á hliðarlínunni að hvetja þátttakendur með grænt Njarðvíkurbuff á höfði.