31. maí 2017

Opnað fyrir skráningu á Landsmót UMFÍ 50+ 1. júní

Nú styttist heldur betur í Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði, sem verður dagana 23.-25. júní.
Ertu tilbúin/n?
Opnað verður fyrir skráningu á morgun, 1. júní.
Á mótinu í Hveragerði verður hægt að keppa í fjölda greina allt frá kúluvarpi til pútts, fuglagreiningar, strandblaki til pönnukökubaksturs og stígvélakasts. Þá er bridds eftir, golf, boccía og utanvegahlaupið. Þetta er bara brot af greinunum.

Lítið mál að skrá sig

Þú getur valið á milli þess að greiða með kreditkorti eða greiðsluseðli. Ef greitt er með greiðsluseðli bætist 390 króna umsýslugjald við reikninginn.
Keppandi á mótinu í Hveragerði greiðir eitt gjald og getur síðan keppt í eins mörgum greinum og hann vill.
En hafðu í huga að til að skrá þig þarftu rafræn skilríki eða Íslykil.
Ef þú ætlar að keppa í fleiri en einni grein þá þarftu að vita það sem stendur hér að neðan.

Svona skráir þú þig

Þátttakandi skráir sig í grein og gengur frá greiðslu.   
Við skráningu í næstu grein kemur aftur upp greiðslufærsla. Keppandi fær sjálfkrafa 100% afslátt af verðinu.
Skráning er með sama hætti í fleiri greinar. Athugaðu að ef þú hefur skráð þig og greitt fyrir eina grein þá færðu sjálfvirkt 100% afslátt í allar aðrar greinar.
Sjáumst í góðu skapi í Hveragerði 23. júní!