22. ágúst 2017

Orkurík en næringarsnauð fæða á íþróttaviðburðum

Nú fer haust- og vetrarstarf að byrja aftur að fullu hjá íþrótta- og ungmennafélögum landsins. Nauðsynlegt er að huga að næringu barna og ungmenna almennt sem og hreyfingu. Birna Varðardóttir, næringarfræðingur og hlaupari hefur kannað fæðuval 10 – 18 ára barna. Hún mælir með því að hafa ávexti, flatkökur og safa með sér á íþróttamót.

Hverju myndir þú ráðleggja ungu fólki að huga að varðandi næringu?

„Það er afar mikilvægt að ungt íþróttafólk borði fjölbreytt og næringarríkt fæði sem uppfyllir þarfir þess fyrir orku- og næringarefni. Staðgóður morgunverður, hádegisverður og heimilismatur að kvöldi, auk millibita yfir daginn í tengslum við æfingar, er til að mynda ágætis viðmið. Flestir þurfa að nærast á 1 – 2 klukkustundum fyrir og eftir æfingar því að það er vont að vera tómur í átökum en að sama skapi ekki gott að vera of saddur.

Þegar æfingar eru eftir skóla vill stundum gleymast að fá sér bita á milli hádegis og kvöldverðar. Það er því gott að venja sig á að stinga til dæmis ávöxtum, smurðri brauðsneið eða jógúrt í töskuna og snæða í kringum æfingar.

Þegar best lætur er neyslu á sykurríkum vörum og mikið unnum vörum stillt í hóf enda ekki æskilegt að slík fæða taki mikið pláss frá hollri og næringarríkri fæðu. Á meðan áreynslan er ekki þeim mun meiri eða lengri er vatn svo alltaf besti svaladrykkurinn.“

Fullkomið nesti á íþróttamót?

„Dagarnir á slíkum mótum eru oft langir og krefjandi. Þar kemur sér því vel að vera með gott nesti. Dæmi um flotta kosti eru ávextir, flatkökur, samlokur með góðu áleggi, vefjur, núðlusalöt, safar, mjólkurvörur og heimagert snarl. Fyrir æfingar og keppni er um að gera að fá sér léttan bita 1½ - 2 klst. fyrir keppni en að íþróttaiðkun lokinni skyldi reyna að fá góða blöndu af kolvetnum og próteinum. Dæmi um snarl, sem ég gríp stundum til fljótlega eftir æfingu, er flatkaka, smurð með hnetusmjöri og bananabitum og mjólkurglas.“


Viðtal við Birnu birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Smelltu hér til þess að lesa blaðið.