09. september 2021

Ráðherra segir félög verða að senda ofbeldismál í faglegt ferli

Mennta- og menningarmálaráðherra áréttar úrræði stjórnvalda um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem starfar samkvæmt lögum nr. 45/2019. Markmið laga um samskiptaráðgjafann er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Ef upp koma einhver mál innan íþrótta- og æskulýðsstarfs er mikilvægt að þeim sé beint í faglegan farveg þar sem fagþekking er til staðar. Innan íþrótta- og æskulýðsfélaga eiga að vera skýrir verkferlar þegar kemur að tilkynningu um óæskilega hegðun, ofbeldi eða kynferðislega áreitni. 

Mikilvægt er að slík mál séu ekki unnin innan félagsins heldur sé leitað aðstoðar hjá barnavernd, lögreglu eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Samkvæmt lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er honum heimilt að krefja þá aðila sem skipuleggja eða bera ábyrgð á íþrótta- eða æskulýðsstarfi um allar þær upplýsingar sem hann metur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. 

Sjá frekar á heimasíðu samskiptaráðgjafa: https://www.samskiptaradgjafi.is/

Undir hvatninguna ritar Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

 

Afrit af bréfi ráðherra.