18. mars 2021

Rafíþróttir á Unglingalandsmóti UMFÍ

Keppt verður í nokkrum rafíþróttaleikjum á Unglingalandsmóti UMFÍ sem verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina. Hallbera Eiríksdóttir hjá UMFÍ segir það frábæra viðbót og auka fjölbreytni mótsins.

Rætt er við Hallberu í fylgiriti Fréttablaðsins um rafíþróttir, sem fylgdu Fréttablaðinu í gær.

 

 

Í viðtalinu segir að vegur rafíþrótta hefur farið vaxandi undanfarin ár og hafa þær aldrei verið vinsælli en nú, bæði hér heima og á heimsvísu.

„UMFÍ er landssamband ungmennafélaga sem sinnir margskonar íþróttum og félagsstarfi og núna hafa rafíþróttir bæst í þann hóp,“ segir Hallbera, sem situr í stjórn UMFÍ.

 

 

„Við hjá UMFÍ höfum fylgst grannt með uppgangi rafíþrótta undanfarin ár og skoðað hvort þær falli undir stefnu félagsins og þá með hvaða hætti. Niðurstaðan er sú að rafíþróttir falla vel að starfi UMFÍ og styrkja ungmennahreyfinguna. Við höfum verið í nánu samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands, en þar er búið að byggja upp mikla þekkingu og reynslu af rafíþróttum,“ segir Hallbera og bætir við að Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafi skipað starfshóp til að móta framtíðarstefnu um rafíþróttir hér á landi. UMFÍ á tvo fulltrúa í þeim starfshópi ásamt ÍSÍ og mörgum fleirum.

 

Efla lýðheilsu

„Í þeirri stefnu kemur fram að rafíþróttir hafi forvarnargildi, þær efli lýðheilsu og auki framtíðarsýn barna og ungmenna. Samkvæmt Ánægjuvoginni, sem unnin er af Rannsóknum og greiningu fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ, kemur fram að um 39% nemenda í 8., 9. og 10. bekk eru ekki virk í neinu skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Mörg börn sem stunda rafíþróttir hafa ekki fundið sig í öðrum íþróttum eða skipulögðu félagsstarfi. Önnur búa langt frá öðrum í dreifbýli. Sum börn og ungmenni hafa jafnvel einangrast félagslega en það er hættuleg þróun. Við hjá UMFÍ teljum það gott að koma rafíþróttum inn í skipulagt starf hjá íþrótta- og ungmennafélögum. Við það fá iðkendur vettvang til að taka þátt í íþróttastarfi með fleirum og sinna áhugamáli sínu en með skipulögðum og markvissum hætti í faðmi íþrótta- og ungmennafélags sem hugar vel að líkamlegri, andlegri og félagslegri líðan iðkenda. Mikilvægt er að æfingar eru undir handleiðslu fagfólks og að leikirnir sem spilaðir eru séu fyrir rétta aldurshópa. Á rafíþróttaæfingum er ekki bara setið við að spila tölvuleiki heldur eru líka stundaðar æfingar af ýmsum toga, líkamlegar og andlegar, farið yfir mikilvægi heilbrigðs mataræðis og fleiri mál tengd lýðheilsu. Rafíþróttir undir hatti UMFÍ snúast nefnilega ekki bara um spilamennskuna heldur líka fleiri góða þætti sem margir þekkja sem Ungmennafélagsandann,“ bendir Hallbera á.

 

 

Hún segir að allt þetta sé mikilvægt til að ná árangri í rafíþróttum.

„Fólk þarf að geta setið lengi í keppnum, þarf að læra að beita líkamanum rétt og svo er gott að þjálfa hugann til að ná góðum árangri. Ekki síður er mikilvægt að eiga í heilbrigðum samskiptum við aðra í rafíþróttum. Það læra iðkendur hjá fagfólki hjá aðildarfélögum UMFÍ,“ bætir hún við.

 

Góð viðbót

Hallbera segir að rafíþróttir séu góð viðbót við annað skipulagt íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna þar sem æft er undir umsjón þjálfara. „Innan raða UMFÍ hafa mörg félög þegar stofnað rafíþróttadeildir og þeim fer sífellt fjölgandi. UMFÍ stefnir að því að halda halda námskeið fyrir þjálfara í rafíþróttum um leið og það verður hægt vegna kórónaveirufaraldursins.

 

 

UMFÍ hefur haldið Unglingalandsmót í 30 ár þar sem þúsundir barna og ungmenna keppa í alls konar íþróttum og njóta samverunnar með fjölskyldum sínum. Í ár verður landsmótið haldið á Selfossi og þar verður meðal annars keppt í rafíþróttum, sem eru alltaf tímamót. Við höfum ekki áður boðið upp á jafnmarga leiki og nú á Selfossi í sumar. Rafíþróttir koma því sterkar inn hjá UMFÍ, sem mér finnst alveg frábært,“ segir Hallbera.