07. mars 2018

Sabína segir gott að sækja um styrki hjá Evrópu unga fólksins

„Þetta var áhugaverð ráðstefna. Við lærðum að meta áhrif umsóknaskrifa, gæðin og áhrif verkefna sem við erum að vinna við hverju sinni og sækjum um styrki fyrir í gegnum Evrópu unga fólksins,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ.

Hún fór í febrúar til Svíþjóðar ásamt Ragnhildi Skúladóttur, sviðsstjóra á þróunar- og fræðslusviði ÍSÍ og sex öðrum fulltrúum frá Íslandi sem fengið höfðu styrki fyrir ýmis verkefni hjá Evrópu unga fólksins (EUF) á norræna ráðstefnu um Erasmus+ verkefni. Yfirskrift ráðstefnunnar var Fortíð - Nútíð - Framtíð.

Helstu markmið ráðstefnunnar voru eftirfarandi: 

  • Horfa til baka: Að leggja mat á sitt eigið Erasmus+ verkefni í samanburði við önnur verkefni sem eru í gangi eða hafa verið framkvæmd.
  • Meta núverandi stöðu: Að skoða áhrif verkefna á ungmenni, samtök og samfélög.
  • Horfa fram á við: Deila hugmyndum um lærdómsferlið og nýta það jákvæða í næsta Erasmus+ verkefnið í framtíðinni.

 

Sýnum karakter

UMFÍ og ÍSÍ vinna saman að verkefninu Sýnum karakter. Í september 2017 héldu UMFÍ og ÍSÍ ráðstefnuna Allir með undir merkjum Sýnum karakter. Ráðstefnan var tileinkuð ungu fólki innan íþróttahreyfingarinnar. Þar hélt m.a. knattspyrnukonan Fjolla Shala magnað erindi sem fulltrúi ungmenna af erlendum uppruna og sagði hún þar frá íþróttaþátttöku sinni sem leið til að aðlagast samfélaginu.

UMFÍ og ÍSÍ fengu styrk hjá EUF vegna ráðstefnunnar og er það ástæðan fyrir því að þær Sabína og Ragnhildur fóru til Svíþjóðar.

Sabína segir ráðstefnuna hafa verið afar gagnlega.

„Þarna lærðum við að meta áhrif verkefna eins og ráðstefnu Sýnum karakter frá ýmsum sjónarhornum og hvernig áhrif þess geta verið á ólíka hópa. Það eru miklir möguleikar fólgnir í því fyrir íþróttahreyfinguna að geta sótt um styrki í sjóði EUF. Þau sem ekki hafa gert það enn þurfa að átta sig á því að EUF gerir þeim kleift að gera svo miklu meira,“ segir Sabína og leggur áherslu á að íþróttahreyfingin eigi að nýta sér það í mun meiri mæli en nú.

 

Sýnum karakter

Evrópa unga fólksins