25. mars 2021

Samtal ungmennaráða

Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir rafræna viðburðinum Samtal ungmennaráða fimmtudaginn 8. apríl næstkomandi á milli klukkan 19:30 – 21:30.

Markmið viðburðarins er að búa til vettvang þar sem fulltrúar ýmissa ungmennaráða geta hist, deilt hugmyndum, ólíkri reynslu sinni og rætt saman á óformlegan hátt. Við vonum að eftir viðburðinn hafi fulltrúar ungmennaráðanna deilt upplýsingum sín á milli um það sem gengur vel í starfi þeirra, hvað megi fara betur og hverjar helstu áskoranirnar eru. Við þurfum nefnilega ekki að finna hjólið upp hvert í sínu horni. Það er miklu betra að gera það saman.

Fyrirkomulag viðburðarins: Þátttakendum verður skipt upp í hópa til þess að sem flestir fái tækifæri til þess að koma sínum hugmyndum á framfæri. Planið er að umræðuhóparnir rúlli í gegnum fjórar umræðulotur. Að þeim loknum koma svo allir hóparnir saman á einum vettvangi.

Dæmi um umræðuefni: Hverju vilt þú áorka sem fulltrúi í ungmennaráði? Hvað eru margir í ungmennaráðinu? Leitar sveitarfélagið til ungmennaráðsins? Eru þið búin að skipuleggja eitthvað sérstakt í COVID-faraldrinum? Eru einhverjir viðburðir framundan?

Við hvetjum ungmennaráð til þess að skrá a.m.k. tvo fulltrúa til þátttöku í rafræna viðburðinum.

Skráning fer fram hér.

Viðburðurinn er í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við í Ungmennaráði UMFÍ munum taka saman upplýsingar frá viðburðinum og senda til stjórnar sambandsins. Einnig munum við birta myndir og upplýsingar um fundinn og mögulegan árangur af honum á samfélagsmiðlum.